140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

umboðsmaður skuldara.

360. mál
[19:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara sem gert er ráð fyrir að verði 1.050 milljónir á næsta ári, var 800 milljónir á þessu ári og 230 milljónir árið áður, Samtals er búið að setja um 2 þús. milljónir í þennan rekstur og áætlað er að svo verði einnig á næsta ári. Tæplega 4 þús. umsóknir hafa borist svo kostnaðurinn er hálf milljón á hverja umsókn. Það sem skuldararnir eru að fá, það væri gaman að setja það í hlutfall við hvað kostnaðurinn er stór hluti af niðurfellingu skulda hjá skuldurunum. Að mínu mati er eitthvað að.

Kvartað er undan því að ferlið sé flókið. Ég lagði til þegar frumvarpið um umboðsmann skuldara var samþykkt 24. júní 2009, að umsóknin yrði gerð eins einföld og hægt væri því að allar þessar upplýsingar eru til á rafrænu formi. Ekki var fallist á það, sú breytingartillaga mín var felld. Það hefði eflaust sparað nokkra tugi milljóna eða meira, þessi endalausu hlaup, því að inn í þá kostnaðartölu sem við tölum um vantar kostnað skuldaranna sem þurfa að hlaupa hingað og þangað og fá vottorð hér og þar, vinnutími, bílakostnaður eða strætókostnaður, ef þeir eru í slíkri stöðu, og síðan kosta vottorðin úti um allt.

Eins og hæstv. ríkisstjórn setti þetta fram og meiri hlutinn í nefndinni bjuggu menn til mikinn kostnað fyrir það fólk sem er í þessum vandræðum. Svo er núna að koma í ljós að kostnaðurinn við vinnsluna er þvílíkur, og eins og ég gat um er hann kominn upp í hálfa milljón á mann, og ekki er séð fyrir endann á honum, það er ekki búið að klára öll þessi 4 þús. mál sem sótt hefur verið um þarna. Ég geri því töluvert miklar athugasemdir við það hvað þetta er orðið óskaplega dýrt.

Síðan kem ég að því hverjir eigi að borga þetta og það er í sjálfu sér mjög réttlátt. Það eru þeir sem hafa hag af því að skuldirnar séu gerðar upp, þ.e. lífeyrissjóðir, ýmsar lánastofnanir o.s.frv. En það er einn hængur á, frú forseti. Lífeyrissjóðirnir eru ekki allir eins. Sumir lífeyrissjóðir hafa ríkisábyrgð, og hvað gerist hjá þeim? Aðrir lífeyrissjóðir og flestir eru í þeirri stöðu að þurfa hugsanlega að fara að skerða lífeyri, þannig að þá kemur þetta gjald beint sem skerðing á þá lífeyrissjóði og allt í lagi með það, það eru hagsmunir þeirra að ganga frá þessum skuldum. En þeir lífeyrissjóðir, opinberu sjóðirnir, munu ekki greiða þetta gjald, þ.e. ekki sjóðfélagar þeirra, þeir munu ekki missa neitt.

Eins og ég gat um fyrr í dag er það þannig með Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, í A-deild, að stjórnin á að leggja til að iðgjald í sjóðinn verði hækkað. Hver skyldi borga iðgjald í sjóðinn, LSR, sem launagreiðandi? Það eru ríki og sveitarfélög. Og hver skyldi á endanum borga það gjald? Það eru akkúrat sjóðfélagar hinna sjóðanna, þar eru skattgreiðendurnir allir. Það eru því sjóðfélagar almennu sjóðanna sem borga þetta gjald. Það er núna búið að leggja, að ég tel, fjögur mismunandi gjöld á lífeyrissjóðina. Það er þetta gjald til umboðsmanns skuldara, mikil hækkun, það er mikil hækkun á gjaldi til Fjármálaeftirlitsins sem lífeyrissjóðirnir borga líka, það er sérstakur fjársýsluskattur sem lífeyrissjóðirnir borga, þ.e. almennu sjóðirnir, ekki hinir, ég vil taka það fram. Svo er það fyrir vaxtabótunum sem lífeyrissjóðirnir borga, þ.e. almennu sjóðirnir, ekki hinir.

Mér finnst þetta varla hægt. Þetta er svo ófélagslegt og ósanngjarnt að hluti lífeyrissjóða borgi skattinn. Það eru reyndar, ætli það séu ekki 70% Íslendinga sem eru sjóðfélagar í almennu sjóðunum og það er ekkert sem stendur á bak við það nema eignir sjóðanna, ekkert. Ef eignir sjóðanna lækka og sjóðirnir ná ekki þeirri ávöxtun sem þeir þurfa, viðmiðunarvextirnir eru 3,5%, ég vara menn við að kalla það ávöxtunarkröfu — lífeyrissjóðirnir eru núna að taka lán og kaupa skuldabréf með 2,2% vöxtum, raunvöxtum, þannig að þeir eru að tapa núna miðað við þessa viðmiðunarvexti.

Ég varaði eindregið við þessu. Það væri miklu sanngjarnara að setja þetta á alla skattgreiðendur, þessi gjöld lífeyrissjóðanna, en ekki vera að mismuna fólki, að verkamenn, iðnaðarmenn og verslunarmenn sem eru í almennu sjóðunum séu látnir borga en opinberir starfsmenn ekki. Ég talaði líka um það í morgun að réttindin yrðu þá skert, það yrði bara reiknað út hvað þetta kostaði og réttindi opinberu sjóðanna skert. En það rekst á eignarréttarákvæðin er ég hræddur um, frú forseti.

Ég ætlaði bara að koma upp til að segja frá þessu, ég vara við því að lífeyrissjóðirnir séu látnir borga af þessu. Eins og kerfið er uppbyggt með lífeyrissjóðina er ekki hægt að lesta þá neitt. En þessi hæstv. ríkisstjórn sem kallar sig velferðarstjórn er að lesta þá á fjóra mismunandi vegu, að minnsta kosti, frú forseti.