140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

almannatryggingar o.fl.

380. mál
[19:09]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um málefni aldraðra. Í frumvarpinu eru í fyrsta lagi lagðar til breytingar á lögum um almannatryggingar þannig að bótaflokkar almannatrygginga hækki um 3,5% frá 1. janúar 2012.

Í öðru lagi er lagt til að í lögum um málefni aldraðra verði bráðabirgðaákvæði VI framlengt en ákvæðið snýr að því að tryggja að kostnaðarþátttaka íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist ekki umfram það sem er í dag.

Í þriðja lagi er talað um að lengja að nýju greiðslur til atvinnuleitenda sem fara yfir þrjú ár. Það var lengt til bráðabirgða í fjögur ár en nú er tillaga um að lengja enn um níu mánuði á næsta ári.

Jafnframt eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar sem rýmka heimild stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs til greiðslu styrkja en það er liður í átakinu Nám er vinnandi vegur.

Í fjórða lagi er breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA.

Ef við snúum okkur að fyrsta liðnum er lagt til í frumvarpinu að bætur almannatrygginga, meðlagsgreiðslur og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð hækki um 3,5% frá 1. janúar 2012. Sú hækkun kemur til viðbótar 8,1% hækkun sem bótaþegar fengu frá 1. júní á þessu ári. Mun þessi hækkun gera það að verkum að einhleypum lífeyrisþegum verða tryggðar að lágmarki rúmar 200 þús. kr. á mánuði og þeim sem ekki búa einir um 175 þús. kr. Fyrir hækkunina 1. júní voru þessar tölur rúmar 184 þús. hjá einhleypum og 157 þús. kr. hjá þeim lífeyrisþegum sem búa með öðrum. Framfærslutryggingin mun því á rúmlega hálfu ári hafa hækkað um næstum 20 þús. kr. á mánuði hjá lífeyrisþegum verði frumvarpið að lögum. Það er meira en 10% hækkun.

Í frumvarpinu er ekki einungis lagt til að lífeyrisþegar fái 3,5% hækkun heldur er jafnframt gert ráð fyrir að allir bótaflokkar, samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, verði hækkaðir um sömu prósentu. Má nefna greiðslu til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna, mæðra- og feðralaun, maka- og umönnunarbætur, allar bætur slysatrygginga, barnalífeyri og meðlagsgreiðslur. Allar þessar greiðslur voru hækkaðar um 8,1% 1. júní sl., á sama tíma, og hafa hækkað vel umfram neysluvísitölu eins og bæturnar í heild.

Í því skyni að ná fram markmiðum fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2012 er í frumvarpinu ekki gert ráð fyrir að frítekjumörk vegna tekna lífeyrisþega hækki á árinu 2012. Þannig er gert ráð fyrir að frítekjumörk vegna atvinnutekna öryrkja, sem nú eru 109.600 kr. á mánuði, verði framlengd óbreytt um eitt ár og þannig lögð áhersla á að öryrkjar geti áfram haft atvinnutekjur upp að því marki án þess að það hafi áhrif til lækkunar á tekjutryggingu eða heimilisuppbót.

Þá er gert ráð fyrir að tekjumörk sem greiðslur sérstakra uppbóta vegna framfærslu miðast við hækki einnig um 3,5%. Er það lagt til í því skyni að verja sérstaklega hag tekjulægstu lífeyrisþeganna. Verði frumvarpið að lögum mun þetta leiða til þess að framfærslutrygging lífeyrisþeganna mun hækka frá 1. janúar nk. í takt við almennar launahækkanir og verða þá um 203 þús. kr. hjá einhleypum og 175 þús. kr. hjá þeim sem búa með öðrum.

Ef litið er á kjör lífeyrisþega á árunum eftir hrun hafa þeir sætt þeirri sömu kaupmáttarrýrnun og allir launþegar og íbúar þessa lands. Einmitt þess vegna hefur verið reynt að tryggja að framfærslutryggingin hækki til að mæta verst setta hópnum. Þrátt fyrir tekjuhrun íslenska ríkisins hefur tekist að verja hlut lífeyrisgreiðslna þannig að heildarbætur frá Tryggingastofnun ríkisins hafa hækkað frá 2006 til 2012 um 19% að raungildi. Auðvitað er aukning á fjölda í þessum tölum en engu að síður hefur tekist að verja þennan hóp þótt betur megi ef duga á í framfærslu margra lífeyrisþega.

Vegna flókinna tekjutenginga og skerðingar í kerfinu er nú í gangi vinna við endurskipulagningu almannatryggingakerfisins og áttu fyrstu tillögur að koma nú í desember. Það mun dragast eitthvað, nú er unnið að einföldun bótaflokkanna en um leið eru tekjumörk samræmd óháð tekjuflokkum.

Rétt er að geta þess að Alþingi samþykkti tillögu um að afnema víxlverkun á bótagreiðslum þannig að hækkanir lífeyrissjóðanna á greiðslum leiða ekki til lækkunar á bótum Tryggingastofnunar og öfugt. Um leið var lofað að taka upp frítekjumark á lífeyrisgreiðslur sem taka mun gildi árið 2013. Í nýsamþykktu víxlverkunarfrumvarpi, fjárlagafrumvarpinu, er gert ráð fyrir að þetta skili rúmum 400 millj. kr. til lífeyrisþega á næsta ári.

Launþegahreyfingin hefur ítrekað áhyggjur sínar af því að jafnvel lágar greiðslur úr lífeyrissjóðum skerði lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun svo mikið að sýnilegur eða raunverulegur ávinningur á réttindum fólks í lífeyrissjóðum sé um of takmarkaður. Það er því mikilvægt að endurskoða kerfið þannig að lífeyrissjóðirnir nýtist vel, þ.e. að menn finni að það gagnist að hafa borgað í lífeyrissjóði. Þess vegna þarf að setja frítekjumark á lífeyristekjur umfram það sem nú er, ekki síst hjá ellilífeyrisþegum. Þá umræðu þarf að taka í tengslum við endurskipulagningu á lögum um almannatryggingar eins og áður sagði.

Stór skref hafa verið stigin á undanförnum missirum til að jafna kjör í landinu eins og að var stefnt með lífeyrisgreiðslum frá Tryggingastofnun, með launastefnu aðila vinnumarkaðarins og breytingum á skattkerfinu, þ.e. þrepasköttunum. Áfram þarf að vinna markvisst að bættum kjörum, aukningu kaupmáttar og vanda vinnu til að útrýma fátækt í landinu.

Í öðru lagi er í frumvarpinu, eins og sagt var áðan, lagt til að heimild til að bera saman útreikning vistunarframlags fyrir og eftir gildistöku laga nr. 166/2006, um breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra, verði framlengd um eitt ár. Heimild þessi hefur verið framlengd árlega frá því að dregið var úr tengingu útreiknings kostnaðarþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum við tekjur maka og hún loks afnumin með öllu á árinu 2008. Er þetta lagt til þar sem greiðsluþátttaka íbúanna mundi að öðrum kosti aukast þegar svo háttar til að vistmaður hefur hærri tekjur en maki sem er heima.

Hæstv. forseti. Í þriðja lagi er fjallað um breytingar á atvinnuleysistryggingalögunum. Skráð atvinnuleysi hefur verið allt of mikið frá október 2008, eftir hrun, og hefur því á þessu tímabili reynt meira á atvinnuleysistryggingakerfið en oft áður. Af þeim sökum hef ég ásamt forvera mínum í starfi og aðilum vinnumarkaðarins fylgst náið með framkvæmd laga um atvinnuleysistryggingar. Hefur það meðal annars leitt til þess að lögð hafa verið fram á Alþingi nokkur frumvörp til breytinga á lögunum þar sem áherslan hefur verið á að bæta úr þeim annmörkum sem upp hafa komið í tengslum við framkvæmd laganna og ekki síður til að leita nýrra leiða í því skyni að bregðast við breyttum aðstæðum.

Þannig var tímabundið lengt upp í fjögur ár það tímabil sem atvinnuleitendur fengu greiddar fullar atvinnuleysisbætur. Þau lög falla úr gildi um áramót enda var gildistíminn bara til þess tíma. Hér er gerð tillaga um að greiddir verði níu mánuðir af fjórða árinu á næsta ári. Ljóst er að fjölgað hefur í hópi atvinnuleitenda sem hafa verið án atvinnu til lengri tíma. Vinnumálastofnun áætlar að rúmlega 2 þús. atvinnuleitendur muni hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur samtals í 42 mánuði, þ.e. í þrjú ár og sex mánuði, eða lengur á árinu 2012. Sá hópur stækkar þegar líður á árið, þ.e. obbinn af þessum fjölda er á síðari hluta ársins.

Að mínu mati blasir því við að leggja þarf aukna áherslu á virkni þessa hóps og stuðla að enn frekari þátttöku þessara einstaklinga í starfs- og námstengdum vinnumarkaðsúrræðum. Í því sambandi er vert að geta þess að reynsla Vinnumálastofnunar er sú að meiri líkur séu á að þátttaka í starfstengdum vinnumarkaðsúrræðum leiði til þess að atvinnuleitandi verði ekki á atvinnuleysisskrá þremur mánuðum eftir að úrræðinu lýkur samanborið við önnur virkniúrræði.

Er því í frumvarpi þessu lagt til að heimilt verði að veita sérstaka styrki til þeirra sem teljast tryggðir samkvæmt lögunum eða töldust tryggðir þegar þeir hófu þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum eða eftir atvikum til vinnuveitenda sem ráða atvinnuleitendur til að gegna störfum sem teljast til starfs- eða námstengdra vinnumarkaðsúrræða.

Samhliða aukinni áherslu á virkni þykir mikilvægt að tryggja framfærslu þessa hóps innan atvinnuleysistryggingakerfisins í lengri tíma en þá 36 mánuði sem ákvæði laganna kveða á um eins og áður sagði. Er því jafnframt lagt til að tímabilið sem heimilt verður að greiða atvinnuleysistryggingar verði lengt frá árinu 2012 í allt að 48 mánuði fyrir þá atvinnuleitendur sem urðu fyrst atvinnulausir 1. mars 2008 eða síðar en þó þannig að atvinnuleitendur eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum í þrjá mánuði eftir að hafa samtals fengið greiddar atvinnuleysisbætur í 42 mánuði. Þarna er sem sagt gerð tillaga um hlé á milli þar sem reiknað er með virkni- og vinnumarkaðsúrræðum.

Hér liggur að baki sú hugsun að mikilvægt sé að ræða við alla þá sem hafa verið í atvinnuleit samfellt í meira en þrjú ár, veita þeim ráðgjöf, reyna að koma viðkomandi í atvinnu eða starfsendurhæfingu. Frumvarpið miðar við að Vinnumálastofnun, aðilar vinnumarkaðarins og sveitarfélögin, sem og ráðuneytin, leggist á eitt við að koma fólki í vinnu eða úrræði við hæfi. Nokkur umræða hefur orðið um þetta þriggja mánaða tímabil og telja sumir að betra væri að vinna að þessari virkni eftir 42 mánaða atvinnuleysi án þess að gera hlé á atvinnuleysisbótum en miða þá við að ef ekki finnast störf við hæfi ljúki bótagreiðslum eftir 45 mánuði, þ.e. þrjú ár og níu mánuði.

Ég tel að í sjálfu sér mæli ekkert gegn því að fara þá leið fremur en þá sem lögð er til í frumvarpinu. Ég bið hv. velferðarnefnd að skoða þessa kosti og leita bestu leiða til að tryggja afkomu atvinnuleitenda sem best, til að ná sem víðtækastri sátt og hafa gott samráð við aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélögin og Vinnumálastofnun.

Í fjórða lagi er í þessu frumvarpi, líkt og ég gat um í upphafi, gert ráð fyrir tilteknum breytingum á lögum um atvinnuleysistryggingar í því skyni að koma til móts við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA við 47. gr. laganna þar sem kveðið er á um samlagningu starfstímabila umsækjenda um atvinnuleysisbætur er flytjast milli aðildarríkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Samkvæmt gildandi lögum er gert ráð fyrir að umsækjandi um atvinnuleysisbætur þurfi að hafa verið virkur á innlendum vinnumarkaði að minnsta kosti síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili svo til álita komi að leggja saman starfstímabil viðkomandi á ávinnslutímabilinu í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum enda hafi störf viðkomandi umsækjanda um atvinnuleysisbætur veitt honum rétt samkvæmt lögum þess ríkis um atvinnuleysistryggingar.

Með þessu hefur verið reynt að tryggja eins og kostur er að viðkomandi hafi sannanlega verið á innlendum vinnumarkaði en í því sambandi hefur jafnframt verið litið til þess að Atvinnuleysistryggingasjóður er fjármagnaður með tryggingagjaldi en ekki beint úr ríkissjóði. Enn fremur hefur þessi tími þótt nauðsynlegur til að koma í veg fyrir misnotkun á atvinnuleysistryggingakerfinu enda ljóst að sveigjanleiki ríkir á innlendum vinnumarkaði sem meðal annars hefur leitt til þess að tiltölulega auðvelt hefur verið að ráða sig til starfa í mjög tímabundin störf á þeim tímum þegar framboð starfa hefur verið nægjanlegt.

Eftirlitsstofnun EFTA telur skilyrði um þátttöku á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili hins vegar of langan tíma í þessu sambandi og telur mikilvægt að hafi umsækjandi um atvinnuleysistryggingar hafið störf á innlendum vinnumarkaði beri að meta hvert tilvik fyrir sig hvað varðar möguleikann á samlagningu starfstímabila í öðrum ríkjum.

Til að bregðast við þessum athugasemdum Eftirlitsstofnunarinnar er því í frumvarpinu gert ráð fyrir að meginreglan verði sú að hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur verið á innlendum vinnumarkaði að minnsta kosti síðasta mánuðinn af ávinnslutímabili skuli Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til starfstímabila hans á ávinnslutímabilinu í öðru aðildarríki að þeim samningum sem tilgreindir eru í ákvæðinu, enda hafi störf hans veitt honum rétt til atvinnuleysistrygginga samkvæmt lögum þess ríkis um atvinnuleysistryggingar.

Þetta er sem sagt spurningin um það hversu langan tíma tekur að komast inn í íslenska atvinnuleysistryggingakerfið. Þar eru okkur settar þær skorður að við getum ekki sett þar hindranir heldur þurfum að taka tillit til þeirra réttinda sem fólk kemur með með sér. Það er takmarkaður tími sem við getum krafist þess að menn séu á íslenskum vinnumarkaði áður en þeir fá bætur ef út í það er farið.

Hins vegar er lagt til að hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur verið skemmri tíma á innlendum vinnumarkaði en síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili skuli Vinnumálastofnun meta í hverju tilviki fyrir sig hvort hann teljist hafa starfað á innlendum vinnumarkaði í skilningi laganna þannig að taka skuli, að því marki sem nauðsynlegt er, tillit til starfstímabila hans í öðru ríki enda hafi störf hans veitt honum rétt til atvinnuleysistrygginga samkvæmt lögum þess ríkis um atvinnuleysistryggingar. Er þessari breytingu ætlað að tryggja að umsækjandi um atvinnuleysisbætur, sem hefur hafið störf hér á landi en hefur á ávinnslutímabili starfað í öðru aðildarríki að þeim samningum sem tilgreindir eru í ákvæðinu, geti átt rétt á atvinnuleysisbótum á grundvelli þess að tekið sé tillit til starfstímabila hans í öðru ríki. Þetta er þrátt fyrir að hann hafi starfað í skemmri tíma á innlendum markaði en síðasta mánuðinn og gert sé ráð fyrir að mál hans verði skoðað sérstaklega hjá Vinnumálastofnun. Þá þykir framangreind breyting jafnframt vera í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið hvað varðar frjálsa för launafólks. Þarna á að fara afmarkandi leið þannig að menn geti ekki komið að utan og farið beint á atvinnuleysisbætur. Þess er krafist að menn hafi verið hér í allt að mánuð en þó er veitt heimild til að meta það í hverju tilfelli. Þannig er reynt að koma til móts við þær athugasemdir sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert við þetta ákvæði í íslenskum lögum.

Hæstv. forseti. Ég hef nú rakið helstu breytingarnar í frumvarpinu á lögum um almannatryggingar, atvinnuleysistryggingar og málefni aldraðra, en líkt og ég gat um í upphafi er tilgangurinn með þeim einkum sá að laga ákvæði þessara laga að forsendum fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2012. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar.