140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

almannatryggingar o.fl.

380. mál
[19:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef talað við atvinnurekendur sem ekki fá fólk til starfa. Sláturtíðin var rekin með fólki frá Nýja-Sjálandi og alls staðar að úr heiminum, fargjaldið borgað, húsnæði á staðnum. Íslendingar fengust ekki.

Ég þekki líka manneskju sem varð atvinnulaus í vor og fór niður á Vinnumálastofnun til að fá vinnu. Nei, það var ekki hægt en hún gat fengið bætur sem hún vildi ekki. Hún vildi fá vinnu. Hún var atvinnuleitandi en ekki atvinnubótaleitandi.

Það er ýmislegt sem mætti laga, t.d. gæti miðlunin verið miklu skilvirkari og fólki ráðlagt í kringum atvinnuleitina þannig að það gæti fengið vinnu sem það vill helst.

Ég held líka að þau úrræði sem hæstv. ráðherra nefnir séu fyrir fólk undir þrítugu. Mér skilst það en ég þekki það ekki nákvæmlega. Kannski er mesta þörfin að virkja það fólk en ekki þarf síður að virkja þá sem verða atvinnulausir fertugir, algjörlega að ófyrirsynju, þá sem gerðu ekki neitt af sér í vinnu. Fyrirtækið varð bara gjaldþrota, það er forsendubrestur.

Ég tel að við, þá undanskil ég ekki sjálfan mig, hefðum átt að gera miklu meira í að virkja þennan hóp þannig að hann fjarlægðist ekki vinnumarkaðinn eins og hann hefur gert. Kannanir sýna, reyndar erlendar, að 80% þeirra sem eru meira en sex mánuði af vinnumarkaði vinna aldrei framar. Það eru mjög hörð örlög.

Nú held ég að við þurfum að taka á honum stóra okkar, virkja sérstaklega þessa 2.400 sem hafa verið atvinnulausir síðan í hruninu og reyna með öllum ráðum að virkja þetta fólk. Ég skora á hæstv. ráðherra að gera það.