140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

almannatryggingar o.fl.

380. mál
[19:31]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við deilum þeirri skoðun að þetta er verkefni sem við eigum að einbeita okkur að. Vissulega er verið að vinna í því. Maður heyrir alltaf þessar sögur um að fyrirtæki fái ekki fólk til starfa. Það er líka að vissu leyti rétt, og við höfum rætt það við Vinnumálastofnun og aðila vinnumarkaðarins, að menn nota ekki Vinnumálastofnun til að fá vinnu í gegnum hana. Þess vegna eru uppi ýmsar hugmyndir um hvernig hægt sé að gera þetta öðruvísi. Meðal annars er verið að ræða um að fara í tilraunaverkefni með launþegahreyfingunni þar sem menn eru með ágengari vinnumiðlun. Unnið er að því þessa dagana.

Jafnframt er unnið að átaki í því að búa til störf, þ.e. að hvetja fyrirtæki til að taka fólk inn í störf, greiða þá með því í ákveðinn tíma, hugsanlega mislangan tíma eftir því hvort menn hafa verið styttri eða lengri tíma á atvinnuleysisskrá og tryggja þannig eftir föngum að fyrirtæki fái tækifæri til að ráða inn nýtt fólk, fái þá atvinnuleysisbæturnar með og 8% ofan á það á meðan.

Annað átak til að hindra afleiðingarnar af atvinnuleysinu, Atvinnutorg, er samstarf sveitarfélaga og ríkisins til að vera með virka vinnumiðlun og mikla virkni fyrir þennan hóp. Ég bind miklar vonir við það átak.

Ég nefndi áðan atvinnuátak námsmanna þar sem um 900 námsmenn fengu vinnu yfir sumartímann hjá ólíkum stofnunum, félögum og fyrirtækjum um allt land. Því til viðbótar má segja að með því að opna framhaldsskólana fyrir næstum 1 þús. nemendum og háskólana fyrir öðrum 1 þús. nemendum hafi menn gert verulegt átak til að hindra að menn lentu í atvinnuleysi til langs tíma.

Það er verk að vinna og það er klárt að eitt stærsta velferðarmálið í þessu landi er að skapa atvinnu og koma fólki í vinnu. (Forseti hringir.) Við skulum taka höndum saman um að það takist.