140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

374. mál
[19:44]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 49/1997, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, með síðari breytingum.

Í frumvarpi þessu er lögð til breyting á lögum þessum þannig að heimilt verði að greiða fé úr ofanflóðasjóði vegna hættumats á eldgosum. Tilgangur breytingarinnar er að treysta fjárhagslegan grundvöll þess að ráðist verði í þess konar hættumat. Nýlega hefur Alþjóðaflugmálastofnunin veitt fjármagn til Veðurstofu Íslands til að gera úttekt á íslenskum eldstöðvum vegna alþjóðaflugsins og er fyrirhugað að bæta við þá úttekt öðrum áhrifaþáttum eldgosa sem varða fyrst og fremst innviði íslensks samfélags. Mundi stuðningur ofanflóðasjóðs nýtast í þeim tilgangi.

Ríkir almannahagsmunir felast í framkvæmd hættumats vegna eldgosa hér á landi en eldgosin í Grímsvötnum og Eyjafjallajökli hafa undirstrikað nauðsyn þess, þ.e. að vinna hættumat fyrir eldgos á Íslandi, og mögulegar afleiðingar þeirra, en margt bendir til að tímabil aukinnar eldvirkni sé hafið hér á landi. Á virku tímabili má meðal annars búast við eldgosi í Grímsvötnum annað til sjöunda hvert ár auk þess sem þekkt er að goshrinur verða samhliða í eldstöðvakerfi Bárðarbungu. Eldgos í Heklu og Kötlu eru jafnframt þekkt. Næmi samfélagsins og innviða þess gagnvart þessari vá hefur aukist mikið samhliða kröfu um aukið upplýsingastreymi.

Hugtakið hættumat fyrir eldgos tekur ekki aðeins til náttúruviðburðanna sjálfra heldur felur það einnig í sér mat á afleiðingum þeirra til skemmri og lengri tíma. Markmið slíks hættumats er að halda samfélagslegu tjóni í lágmarki og vera grundvöllur mótvægisaðgerða. Svo unnt sé að hefja vinnu við gerð hættumats vegna eldgosa á Íslandi þarf nauðsynlegt fjármagn til verksins að vera tryggt. Í lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum er að finna ákvæði um sérstakan sjóð, ofanflóðasjóð. Fé þess sjóðs er notað til að greiða kostnað við rekstur hans og ofanflóðanefndar svo og kostnað við varnir gegn ofanflóðum samkvæmt 13. gr. laganna. Mælt er fyrir um tekjur ofanflóðasjóðs í 12. gr. sömu laga en helsti tekjustofn sjóðsins er árlegt gjald sem lagt er á allar brunatryggðar húseignir og nemur 0,3‰ af vátryggingarverðmæti þeirra.

Ljóst er að vinna við hættumat vegna ofanflóða sem greidd hefur verið úr ofanflóðasjóði er nú á lokastigi þannig að verði ákveðið að heimila þann kostnað úr ofanflóðasjóði næstu þrjú árin munu útgjöld sjóðsins vegna hættumats ekki aukast sem nemur stuðningi við verkefnið. Af þeim sökum er lagt til að heimilað verði að veita fé úr sjóðnum til að greiða fyrir hættumat vegna eldgosa eins og lagt er til með þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpinu á lögum nr. 49/1997.

Eldgos eiga það sameiginlegt með snjóflóðum og skriðuföllum að þau eru náttúruvá. Atburðir síðustu ára hafa sýnt okkur að gildi fyrirliggjandi hættumats er mikið fyrir viðbrögð og því er mikilvægt að vinna hættumat vegna eldgosa eins og gagnvart ofanflóðum. Má færa fyrir því sterk rök að kostnaður af þessu verkefni sé þess vegna að hluta til greiddur úr þessum sama sjóði. Verði frumvarp þetta að lögum eru almannahagsmunir tryggðir með því að nægu fé verður varið til að vinna hættumat vegna eldgosa.

Virðulegur forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.