140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

374. mál
[19:48]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hér er rætt um ofanflóð í tengslum við lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum en frumvarpið fjallar raunar ekki um ofanflóð heldur miklu frekar um neðanflóð ef um flóð er að ræða. Að minnsta kosti er uppruni þeirrar vár neðan jarðar, í jörðinni sjálfri en ekki í lofthjúpnum eins og til dæmis ef um snjóflóð er að ræða. Það er svo sem ekki stórmál en bendir þó á það að hugsanlega þyrfti þetta mál, ef góður bragur væri á, eins og stundum er sagt í þinginu, að koma fyrir okkur í tengslum við einhvers konar endurskoðun laganna frá 1997, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Hugmyndin er að inn í lögin séu settar heimildir til ráðstafana, ég segi ekki um varnir gegn eldgosum, en um viðbúnað í slíku tilviki. Þá er næsta spurning sú: Eiga lögin að fjalla almennt um náttúruhamfarir af ýmsu tagi og á sá sjóður sem um er rætt í 12. gr. laganna kannski að bregðast við alls kyns hamförum? Ljóst er að þótt eldgos séu mikil vá á Íslandi og hafi lengi verið er ein vá þó öllu meiri um allan heim og það er sú vá sem stafar af loftslagsbreytingunum, að yfirborð sjávar hækkar, sem við eigum væntanlega eftir að verða mjög vör við í framtíðinni. Illa gekk í Kaupmannahöfn, illa gekk í Mexíkó og illa gengur í Durban þannig að ekki er annað að sjá en að börn okkar og barnabörn eigi eftir að heyja hér hetjulega baráttu sem við höfum því miður ekki kjark til að takast á við. Þá á ég ekki við okkur sem erum í salnum heldur mannkyn allt eða a.m.k. leiðtoga þess.

Ég vil segja um þetta frumvarp að ég hef sem stendur ekki mótað fyllilega afstöðu til þess. Ég gerði fyrirvara við það þegar það var borið undir þingflokk minn, eins og menn vita að siður er á Alþingi og í samskiptum ráðherra og þingmanna eða stjórnarmeirihluta. Sá fyrirvari stafar af því að skoða þarf að málið mjög vel. Sá sjóður sem um er að ræða er átaksverkefni. Framlag til hans var hækkað í framhaldi af miklum og hörmulegum snjóflóðum á síðasta áratug aldarinnar sem leið. Framlagið er annars vegar í fjárlögum en hins vegar 0,3‰ af vátryggingarverðmæti árlega. Þó að 0,3‰ hljómi ekki svakalega mikið þá leggst það á allar fasteignir í landinu og er skattur sem húseigendur allir, sem í okkar landi eru mestan part venjulegt fólk, þarf að greiða. Þegar skattur er endurnýjaður með þessu hætti verður að skoða málin, og þá tek ég fram að það er Mörður Árnason sem hér stendur en ekki hv. þm. Pétur Blöndal, en ábyrgð okkar er sú að við erum hér fyrir hönd kjósenda okkar og landsmanna allra og við verðum að skoða mjög vel hvað er að gerast. Það sem eðlilegt væri að gera miðað við að verkefninu er að ljúka, hættumati gagnvart snjóflóðum og byggingu mikilla snjóvarnargarða um allt land — ég verð að segja í framhjáhlaupi að ég held þar hafi að sumu leyti ríkt meira kapp en forsjá vegna þess að það blandast auðvitað atvinnumálum í héraði og það verða kannski ekki eins hreinar varnir og ekki eins mikið tillit tekið til umhverfis staðanna þar sem þær eru og vera ætti, en látum það vera.

Í framhaldinu væri kannski eðlilegt að lækka aftur framlög húseigenda til ofanflóðasjóðs og fara aftur úr 0,3‰ í 0,2‰ þannig að síðasta breytingin sé tekin í burtu. En mönnum þykir kominn upp annar vandi og þá er þarna ákveðin hola sem hægt er að setja hann í. Ég skil það svo að fjármögnun sú sem nú rennur til hættumats gagnvart snjóflóðum muni nú renna til hættumats vegna eldgosa.

Almennt er ég ekki viss um að það sé heppilegt, ég veit það ekki. Það þarf alla vega að skoða það vel. Efnahags- og viðskiptanefnd ætti í það minnsta að gefa um umsögn um málið. Skattkerfið er mjög þanið núna en til lengri tíma litið verðum við að gera okkur grein fyrir því hvaða almenna stefna ríkir um skattana. Fasteignaskattur á að renna til ákveðinna hluta, tekjuskattur hefur ákveðið séreðli og virðisaukaskattur líka. Það eru einkum þessir sérstöku skattar, hinir mörkuðu skattar þar sem skattur er tekinn af tilteknum stofni og látinn renna í tiltekin verkefni, sem þarf að skoða vel. Ég er sem sé ekki sannfærður um það af lestri þessarar greinargerðar og áherslu framsöguræðunnar, eins ágæt og hún var, að það sé rétt að gera þetta svona.

Ég ætla ekki að tefja þetta meira. Ég er í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar og ber fram þær spurningar sem ég hef um málið þar og vænti svara og góðrar samvinnu um það. Ég tel að það taki tíma. Ég vona að ráðherrann flytji ekki málið á þessu fimmtudagskvöldi í þeirri von að það verði afgreitt fyrir jól samkvæmt starfsáætlun þingsins því að það tel ég ákaflega hæpið, enda er þetta mál sem er í eðli sínu er jákvætt, að við hefjum hættumat það sem lýst er í greinargerðinni. En það getur verið varhugavert ef það hreyfir við sköttum eða er í raun endurálögn skatts sem nú ætti að vera af farin.

Það vil ég segja og held fyrirvara mínum við málið. Ég geri ráð fyrir að stuðningur verði feikilega mikill á öðrum stöðum í þingheimi og meiri en hjá mér þannig að ég steypi að minnsta kosti ekki ríkisstjórninni eða tek stólinn undan ráðherranum með þessum fyrirvara.