140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

381. mál
[20:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, og það er meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem flytur það. Með frumvarpinu er lagt til að gildistöku ákvæðis um hljóðritanir ríkisstjórnarfunda verði frestað og komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. nóvember 2012 í stað 1. janúar 2012.

Ákvæði frumvarpsins er tekið úr nýframlögðu frumvarpi til upplýsingalaga en ekki hefur gefist tími til að mæla fyrir því og næst væntanlega ekki fyrir jól þannig að þetta ákvæði er sérstaklega tekið út þar sem nauðsynlegt er talið að fresta gildistöku þess af ástæðum sem ég mun greina frá á eftir.

Það er mat meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að nauðsynlegt sé að fresta því að umrætt ákvæði komi til framkvæmda. Því til grundvallar liggur sú meginástæða að ákvæði skorti um það í lögum hvernig aðgangi að hljóðupptökum af fundum ríkisstjórnar og endurritum af þeim skuli háttað. Nefndin styðst í þessu mati við álitsgerðir frá Róbert R. Spanó, prófessor í lögum við Háskóla Íslands, og Gunnari Helga Kristinssyni, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Álitsgerðir þeirra eru birtar sem fylgiskjal með frumvarpinu.

Niðurstöður þeirra eru að nauðsynlegt sé að greina nánar, rannsaka og taka afstöðu til þeirra atriða sem þeir nefna áður en ákvæði um hljóðupptökur á ríkisstjórnarfundum komi til framkvæmda.

Það þarf að ákveða hverjir skuli eiga rétt til aðgangs að hljóðupptökum og endurritum af þeim. Taka þarf afstöðu til aðgangsréttar almennings og fjölmiðla, sérstakra eftirlitsaðila og stjórnvalda sjálfra.

Ef ég vík fyrst að aðgangsrétti almennings og fjölmiðla þá segir mjög skýrt í upplýsingalögum að fundargerðir ríkisstjórnar og minnisgreinar sem teknar eru saman fyrir ráðherrafundi séu undanþegnar upplýsingarétti almennings. Nauðsynlegt er, til að taka af allan vafa í þeim efnum, að kveða jafnframt skýrt á um það að sama gildi um hljóðupptökur og endurrit þeirra. Þessu þyrfti að koma í lag í upplýsingalögum.

Ef ég vík að aðgangsrétti sérstakra eftirlitsaðila þá þarf að taka afstöðu til þess hvaða reglur skuli gilda um aðgangsrétt þeirra að hljóðupptökum og endurritum af þeim. Ljóst verður að telja að saksóknari, Alþingi og landsdómur muni eiga rétt til aðgangs að þessum gögnum ef á reynir. Sama gildir um rannsóknarnefndir sem Alþingi skipar og það getur einnig gilt um þingnefndir. Þeir nefna sérstaklega hina nýju stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins og einnig telja þeir að umboðsmaður Alþingis gæti átt rétt á aðgangi að þessu.

Síðast en ekki síst fellur undir þetta spurningin um aðgang stjórnvalda sjálfra. Í því sambandi er sérstaklega brýnt að taka afstöðu til þess hvort og þá í hvaða tilvikum forsætisráðherra og aðrir ráðherrar í ríkisstjórn eigi að hafa rétt til aðgangs að hljóðupptökum af fundum fyrri ríkisstjórna. Allt er þetta út af því að það að upplýsingar séu ekki birtar í 30 ár, eins og kveðið er á um í stjórnarráðslögunum um þessar hljóðritanir, þá er það eitt að gera upplýsingar opinberar og annað að einhverjir aðilar í þjóðfélaginu geti undir ákveðnum kringumstæðum krafist aðgangs að gögnunum. Þetta er sem sagt tvennt ólíkt og þar þarf að skilja á milli.

Loks segja prófessorarnir að leggja þurfi mat á hvaða þýðingu upptökur á ríkisstjórnarfundum geti haft á mat á ábyrgð ráðherra, bæði lagalegri ábyrgð á grundvelli laga um ráðherraábyrgð og pólitískri ábyrgð. Í því sambandi nefna þeir til dæmis að meta þurfi sérstaklega hvaða þýðingu almenn ummæli og fyrirvarar sem ráðherrar setja fram á ríkisstjórnarfundi um einstök mál án þess að ganga svo langt að bóka sérafstöðu geti haft við sakamat samkvæmt ráðherraábyrgðarlögum. Þess vegna er lagt til í þessu frumvarpi sem ég tala nú fyrir að ákvæði 4. mgr. 7. gr. laganna, þar sem mælt er fyrir um að hljóðritunum ríkisstjórnarfunda verði frestað til 1. nóvember 2012, og lagt er til að sá tími sem þá gefst verði nýttur til að kanna betur þau lagalegu álitaefni sem uppi eru í tengslum við hljóðritun ríkisstjórnarfunda.

Í athugasemdum með greinargerð með nýframlögðu frumvarpi til upplýsingalaga kemur fram að gert sé ráð fyrir að forsætisráðherra muni eigi síðar en við upphaf þings í september 2012 gera þinginu grein fyrir niðurstöðu þessarar athugunar. Ég vil sem sagt ítreka það, virðulegi forseti, að þetta er flutt vegna þess að upplýsingalögin komast ekki á dagskrá fyrir jól.

Virðulegi forseti. Ég tel líka rétt að geta þess að afstaða flutningsmanna til hljóðritananna sjálfra er ólík. Það kom í ljós í atkvæðagreiðslum í haust. Ég vil líka taka fram að það er ljóst að í hugum einhverra flutningsmanna er þessi frestur lagður til til þess eins að ganga úr skugga um samhengi ákvörðunar í lagalegu tilliti en ekki hvort ákvörðunin sjálf hafi verið réttmæt. Mér þótti sem sagt rétt að taka fram að það er af þessum ástæðum sem málið er flutt vegna þess að upplýsingalögin komast ekki á dagskrá fyrir jól.