140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

tekjuhlið fjárlaga.

[13:44]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Nú þegar við fáum að sjá hvernig tekjuhlið fjárlaganna kemur út úr nefnd til þingsins tel ég kominn tíma fyrir hæstv. fjármálaráðherra að draga til baka yfirlýsingar um að hér sé ekki verið að hækka skatta á allan almenning í landinu. Ég ætla að taka nokkur dæmi. Efri tekjumörk í því skattþrepakerfi sem hér hefur verið búið til hækka einungis um 3,5% en ekki um þau 8% sem launþegar höfðu áður gert ráð fyrir. Kolefnisgjald á bensín og dísil verður hækkað um 32%, þar með hefur ríkisstjórnin, með kolefnisgjaldinu einu, fyrir utan aðrar hækkanir sem leggjast á bensín og dísil, hækkað bensínið um 6,3 kr. og dísilinn um 7,2 kr. Allur almenningur þarf að bera þessar hækkanir. Áfengis- og tóbaksgjöld hækka enn einu sinni. Hið sama gildir um skattlagningu vegna séreignarlífeyrissparnaðar eins og frægt er orðið. Þar er gengið á sparnað alls almennings í landinu með nýjum sköttum. Þetta er fyrir utan það sem kallað er skattur á lífeyrissjóðina en ætti með réttu að heita skattur á lífeyrisréttindi. Lífeyrissjóðirnir eru ekkert annað en samansafn af lífeyrisréttindum almennings og þegar það er skattlagt er verið að skattleggja lífeyrisréttindi allra landsmanna. Allt þetta lendir augljóslega á öllum almennum launþegum í landinu og þeir sitja uppi með sem auknar álögur í heimilisrekstri sínum.

Fyrir utan þetta koma hér fram alls konar svik á fyrri loforðum. Við getum tekið sem dæmi auðlegðarskattinn sem átti að vera tímabundinn skattur, hann er núna framlengdur og hækkaður. Það er líka hægt að nefna fjársýsluskattinn sem gerir stöðu fjármálafyrirtækjanna erfiðari og það stefnir í, samkvæmt umsögnum, að það muni leiða til uppsagna, ekki síst hjá konum hjá fjármálafyrirtækjum á landsbyggðinni. Sem betur fer hafa stjórnarliðar hlaupið undan hugmyndum um kolefnisgjald á kol og koks sem hefði leitt til (Forseti hringir.) stórkostlegra uppsagna. Samanlagt er orðið augljóst að tekjuhlið fjárlaganna gefur ekkert tilefni til þeirra yfirlýsinga sem hafa verið gefnar út. Nú er kominn tími til að viðurkenna að verið er að skattleggja allan almenning með þessum fjárlögum.