140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

tekjuhlið fjárlaga.

[13:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það þarf ekki óundirbúna fyrirspurn til að taka á dagskrá þau mál sem eru á dagskrá strax á eftir þessum fyrirspurnatíma og hægt að ræða þar. Afgreiðsla efnahags- og viðskiptanefndar á tekjufrumvörpunum staðfestir einfaldlega að tekjuforsendur fjárlaganna verða uppfylltar með hverfandi fráviki frá því sem fjárlögin gerðu ráð fyrir þegar þau voru afgreidd hér. Það stendur sem áður var sagt, að stóru tekjustofnarnir eru óhreyfðir. Það er ekki verið að hækka, þvert á móti frekar lækka, tekjuskatt. Ekki er hróflað við virðisaukaskatti. Tryggingagjald verður lækkað þannig að stóru breiðu skattstofnarnir sem snúa að almenningi eru ýmist frekar lækkaðir eða standa óbreyttir. Þannig verður það til dæmis með tekjuskatt, að skattbyrði tekjulægri hópanna mun minnka með fullri verðtryggingu persónufrádráttar og yfir 9% hækkun neðsta skattþrepsins.

Hitt lá löngu fyrir, að 3,5% kjarasamningahækkunarprósentan á næsta ári er víða notuð sem viðmiðun í fjárlagafrumvarpinu. Það lá líka fyrir að kolefnisgjaldið yrði hækkað um þau 25% sem eftir var af fullri viðmiðun um verð losunarheimilda innan ESB, og áfengi og tóbak tekur verðlagshækkunum eins og margar aðrar breytur í fjárlagafrumvarpinu. Krónutölugjöld og slíkir skattar eru núna látnir fylgja verðlagi ár frá ári þannig að þar er ekki um raunhækkun að ræða.

Varðandi lífeyrissjóðina er rétt að minnast þess að þetta snýst um þátttöku þeirra í gríðarlega viðamiklum skuldaaðgerðum í þágu heimilanna þar sem almenni þátturinn var að stórauka vaxtabætur með sérstakri vaxtaniðurgreiðslu árin 2011 og 2012 upp á ríflega 6 milljarða kr. hvort ár. Milli 18 og 19 milljarðar kr. fara til greiðslu vaxtabóta og vaxtaniðurgreiðslna árin 2011 og 2012. Þessar aðgerðir og samlegðaráhrif þeirra sem allir njóta góðs af, lífeyrissjóðir af því sem bankar og Íbúðalánasjóður gera og vice versa, eru auðvitað gríðarlega mikilvægar. Um það samdist í desember á síðasta ári og ekki stendur til að láta það samkomulag (Forseti hringir.) springa í loft upp.