140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

breytingar á evrusamstarfi og umsókn Íslands.

[14:01]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Mér telst svo til að þetta sé um það bil í fjórða sinn á rúmri viku sem ég svara þessari sömu spurningu frá ýmsum hv. þingmönnum. Það væri svo sem nægjanlegt að vísa í það að afstaða mín hefur ekki breyst frá því í síðustu viku eða frá því ég svaraði spurningunni hér áðan, fyrir svona fimm mínútum.

Ég tel að það sé ekki sjálfgefið að þau lönd innan Evrópusambandsins sem ekki hafa evru í dag muni taka hana upp. Mér er ekki kunnugt um annað en að Svíar telji að þeir geti haft sína krónu svo lengi sem þeim sýnist, þeir komist upp með það. Þeir felldu það í þjóðaratkvæðagreiðslu að taka upp evru eins og kunnugt er. Danir höfðu áform um að fara í slíka þjóðaratkvæðagreiðslu en enginn maður ræðir það lengur í Danmörku. Ég held að myndin sé því ekki eins einföld og hv. þingmaður dregur upp. Auðvitað boðar afstaða Breta í þessum efnum ákveðin tímamót sem fróðlegt verður að fylgjast með hvaða áhrif hafa.

Ég vísa til þess sem ég sagði áðan: Að sjálfsögðu fylgjumst við grannt með því, ekki bara hvort og hvernig mönnum gengur að glíma við þetta heldur einnig því hvernig það verður innleitt og með hvaða afleiðingum, hvaða takmörkunum. Hvaða skorður mundi það til að mynda setja ríki með sjálfstæðan gjaldmiðil varðandi ríkisfjármála- og peningastefnu sína á sveiflutímum í sögu hagkerfisins við að beita getu ríkisins til slíks?

Um leið og ég er talsmaður aukins aga og aukinnar ábyrgðar í þessum efnum, sem reynslan ætti að hafa kennt okkur Íslendingum að við þurfum að temja okkur, er ég heldur ekki tilbúinn að skrifa pólitískt upp á það að ekki megi beita til dæmis sveiflujöfnunarmætti hins opinbera þegar þess er þörf til að styðja við samfélagið á erfiðleikatímum. Ég er því heldur ekki hrifinn af ýtrustu frjálshyggju í þessu tilviki frekar en öðrum.

Afstaða mín er þessi: Þetta var umdeilt mál í okkar röðum en framkvæmdarvaldið vinnur að sjálfsögðu á grundvelli þeirrar samþykktar sem gildir þar til henni er breytt og það er í höndum þess hins sama Alþingis og tók þá ákvörðun.