140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

breytingar á evrusamstarfi og umsókn Íslands.

[14:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Mér virðist hv. þingmaður vera að gera ítrekaðar tilraunir til að fá mig til að segja já við þeirri spurningu hvort björgun Sjálfstæðisflokksins á landsfundi sínum í Evrópumálum hafi ekki verið rétt stefna. (Gripið fram í.) Að slá þessu á frest um einhvern óákveðinn tíma til að fresta uppgjörinu innan flokksins og síðan væri kannski rétt að kjósa um framhaldið einhvern tímann á vel völdum tímapunkti í framtíðinni. Ég sé ekki hverju við Íslendingar værum þá nær. Þá fyrst væri til lítils á sig lagður þessi leiðangur, sem vissulega hefur verið erfiður og ekki okkur öllum sérstakt fagnaðarefni, ef við værum bókstaflega engu nær þegar við allt í einu hættum eða slægjum málinu á frest.

Ég vil helst fá út úr þessu efnislega niðurstöðu sem við og þjóðin getum notað til að móta stefnu okkar um það hvernig þessum tengslum verði háttað til frambúðar. Ég er ekki þeirrar skoðunar (Forseti hringir.) að það sé sjálfgefið að þær breytingar sem nú eru í farvatninu hjá Evrópusambandinu leiði til þess að staða einstakra ríkja gagnvart evrunni breytist. Eftir því sem mér skilst, þó að það sé í orði kveðnu þannig að menn eigi að taka hana upp, hafa menn um leið mikið svigrúm (Forseti hringir.) til að skilgreina það sjálfir og meta hvenær þeir óska eftir að fara í það ferli.