140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

fsp. 5.

[14:06]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það voru umdeild lög sem sett voru á Alþingi og kennd eru við skötusel. Meðal annars var gagnrýnt að heimildir voru teknar af þeim sem áður höfðu skuldsett sig til kaupa á þeim. Réttlæting þeirra sem stóðu að löggjöfinni var meðal annars sú að það sem kæmi út úr leigunni á skötuselskvóta yrði notað til atvinnuuppbyggingar og rannsóknarverkefna og yrði sérstaklega horft til landsbyggðarinnar í þeim efnum.

Þannig hafði AVS-sjóðurinn til umráða á þessu ári tæpar 100 millj. kr. sem farið hafa í verkefni út um allt land. Í verkefni sem tengjast veiðum, vinnslu og eldi í matvælaframleiðslu hafa farið yfir 42 millj. kr. Í verkefni tengd hráefni og hráefnismeðferð hafa farið yfir 15 millj. kr. Til að efla veitingastaði, menningu, matargerð og ferðaþjónustu hafa farið rúmlega 26 millj. kr. Þetta hefur, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið hjá forsvarsmönnum AVS-sjóðsins, lyft grettistaki víða.

Nú hefur hv. meiri hluti á Alþingi ákveðið að ganga á svig við það markmið sem sett var með þessum lögum sem síðast var breytt á þessu ári. Fjármálaráðherra ætlar að bíta höfuðið af skömminni í skattlagningarhugmyndum sínum og læsa krumlunum í fjármagn sem áður hefur verið eyrnamerkt til atvinnuuppbyggingar, sérstaklega á landsbyggðinni. Það virðist vera að atvinnusköpun, það sem eflir atvinnulíf í landinu, sé bannorð í huga hæstv. fjármálaráðherra. Frekar er horft til þess hvernig hægt sé að auka skattlagningu sem íþyngir atvinnulífinu, og það gerir þessi skattlagning.

Mig langar að ræða þetta og fá fram viðhorf hæstv. sjávarútvegsráðherra í þessum málum, hvernig hann líti á þær breytingar sem fyrirhugaðar eru af hálfu meiri hlutans, hvort hann sé sáttur við þær, (Forseti hringir.) og hvort þetta sé í samræmi við þær yfirlýsingar og þau heit sem gefin voru þegar lögin voru sett á sínum tíma.