140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

fsp. 5.

[14:11]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér kemur klárlega í ljós að ekki er miklu að treysta þegar kemur að verkum ríkisstjórnarinnar. Hér upplýsir hæstv. sjávarútvegsráðherra að þetta hafi sérstaklega verið tiltekið þegar ríkisstjórnin hélt fund fyrir vestan með fólkinu þar til að gefa fögur fyrirheit um framtíðina og aukna atvinnuuppbyggingu.

Á þessu ári, af þeim 100 millj. kr. sem fara í þessa styrki, hafa 7,3 millj. kr. farið á höfuðborgarsvæðið, 17,5 millj. kr. á Vesturland, 26 millj. kr. á Vestfirði og 17,2 millj. kr. á Norðurland vestra. Það eru einmitt þessi svæði sem fengið hafa langmest úr þessum sjóði til uppbyggingar atvinnulífs.

Nú ætlar ríkisstjórnin að svíkja þessi fyrirheit og hæstv. ráðherra að læsa krumlunum í peningana. Það er eins og með önnur fögur fyrirheit sem hæstv. ríkisstjórn hefur gefið, (Forseti hringir.) þau eru svikin og eftir situr fólkið með sárt ennið.