140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[14:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Síðasta andsvar hv. þingmanns um að ekki væri hægt að gefa álit af því að fastan fundartíma vantaði kemur nokkuð á óvart. Ég held að þetta þarfnist skýringar við, ég næ ekki að setja fingur á þetta, ég verð að segja eins og er að hv. þingmaður sló mig alveg út af laginu með þessari yfirlýsingu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um eitt í þeim breytingum sem verið er að gera. Margir þingmenn telja, og það kemur meðal annars fram í nefndaráliti 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson ritar, að almenn hækkun á svokölluðum krónutölusköttum upp á 5,1% muni leiða af sér 3 milljarða kr. hækkun á lánum heimilanna í landinu, þ.e. að þetta fer út í verðlagið og hækkar lánin.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji í raun rétt að fara af stað í vegferð sem hefur þessi áhrif. (Forseti hringir.) Þó að hægt sé að færa rök fyrir því að þetta sé hlutfallslega lítið þá kemur þetta augljóslega við fólk.