140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[15:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Þakka forseta. Um gistináttaskattinn er það einfaldlega að segja, hv. þingmaður, að útfærslan á honum var sett fram til að hafa hann sem einfaldastan, bara ein upphæð á hverja gistieiningu og væri greidd í öllum formum gistingar. Það var aldrei ætlunin að leggja það á orlofshús stéttarfélaganna enda lýtur það öðrum lögmálum þegar fólk kaupir sumarhús í sameiningu og nýtir sem réttindi sín í félagi að nota það, auk þess sem það hefði beinlínis strítt gegn markmiðum okkar við innleiðingu gistináttagjaldsins því að það hefði flækt skattframkvæmdina. Þessir aðilar voru þegar undanþegnir virðisaukaskatti og því var sérlega umhendis fyrir þá að setja upp innheimtukerfin og koma inn í gjaldtökukerfið og hefði bara aukið flækjustigið í framkvæmdinni.