140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[15:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikil frétt ef sú staða er uppi að hæstv. ríkisstjórn vilji ekki flækja skattkerfið eins og kom fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar, en ég ætla ekki að fara í það núna.

Hv. þingmaður fór yfir að mjög mikilvægt væri að fjölga störfum, auka sparnað og auka fjárfestingu og sagði í ræðu sinni að þetta frumvarp væri liður í því. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki á því hvernig það getur verið. Ég get ekki áttað mig á hvernig það eykur sparnað að ráðast á viðbótarlífeyrissparnaðinn. Ég get ekki áttað mig á hvernig það eykur sparnað eða fjárfestingu að leggja á eignarskatta sem eru einsdæmi í heiminum og má segja að séu eignaupptaka. Ég get ekki séð hvernig það eykur störf að setja á sérstaka launaskatta. Meira að segja hækkun á neftóbaki gæti leitt til að störfum yrði fækkað og ég þekki það aðallega af því að ég hef heimsótt ÁTVR. Og svo sannarlega er hækkun á eldsneyti ekki leið til að auka þetta þrennt sem (Forseti hringir.) hv. þm. Helgi Hjörvar minntist á. Ég spyr hv. þingmann: Hvað á hann eiginlega við? Þessi röksemdafærsla gengur ekki upp.