140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[15:14]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til ráðstafana í ríkisfjármálum. Áður en ég hef mál mitt ætla ég að beina þeim vinsamlegu tilmælum til virðulegs forseta hvort hún gæti kallað á hv. formann fjárlaganefndar, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, og beðið hana um að sitja undir að minnsta kosti fyrri hluta umræðunnar þar sem ég hef miklar efasemdir um að tekjuhlið fjárlaganna sem hún bar fram standist.

(Forseti (RR): Forseti mun gera tilraun til að ná í hv. formann fjárlaganefndar og koma skilaboðum þingmannsins áleiðis.)

Virðulegi forseti. Þetta er mikið og stórt mál sem við ræðum hér og á því eru ýmsar hliðar. Fyrst langar mig til að tala aðeins um formið á málinu. Frumvarpið var lagt inn til efnahags- og viðskiptanefndar fyrir þó nokkru síðan og við höfum átt marga og gagnlega fundi um málið. Síðan kom upp sú staða að það urðu þó nokkuð miklar breytingar á frumvarpinu sjálfu og frumvörpum tengdu því eða tengdu tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins sem mig langar til að gera aðeins að umtalsefni hérna.

Í fyrsta lagi voru þessar breytingar gerðar á seinustu stundu, sumar þeirra voru gerðar á hlaupum á göngum Alþingis í gær eftir að fundum var frestað að minnsta kosti tvisvar sinnum í efnahags- og viðskiptanefnd. Við fulltrúar minni hlutans báðum um að fjármálaráðuneytið kæmi inn og gæfi umsögn um hvaða áhrif þessar breytingar hefðu á tekjuhliðina eða á tekjur ríkissjóðs. Það var orðið við þeirri beiðni. Hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Helgi Hjörvar, varð vinsamlegast við þeirri beiðni og fjármálaráðuneytið kom og gerði grein fyrir áhrifunum.

Ég verð að segja að fjármálaráðuneytinu var nokkur vorkunn þar sem verið var að taka ákvörðun liggur við í rauntíma, frá mínútu til mínútu, og þar af leiðandi var erfitt fyrir fjármálaráðuneytið að gera sér grein fyrir heildaráhrifunum. Þrátt fyrir það gat fjármálaráðuneytið gefið okkur munnlega mat sitt, lauslegt mat sem ég tel að hafi ekki verið trúverðugt. Þar var ekki við embættismennina að sakast, heldur fyrst og fremst tímaskort og þau vinnubrögð sem voru viðhöfð í gær. Fjármálaráðuneytið hefur ekki enn gefið skriflega umsögn um tekjuhliðina, það mun eflaust gera það milli 2. og 3. umr. en það er erfitt að leggja inn í umræðu með ekki meira efni en maður hefur í höndunum, þ.e. að vita ekki meira um hvaða áhrif allar þær breytingar sem boðaðar hafa verið muni hafa á tekjurnar.

Fjárlaganefnd hefur ekki gefið efnahags- og viðskiptanefnd umsögn um málið sem er miður vegna þess að eins og allir vita bar fjárlaganefnd fram tekjuhlið fjárlaganna og það sem efnahags- og viðskiptanefnd er síðan að gera er að breyta sköttum og bæta við sköttum og gjöldum til að geta uppfyllt tekjuhlið fjárlaganna.

Það vill svo til að þingsköp Alþingis eru mjög skýr í þessu efni. Þar segir í 5. tölul. 13. gr., með leyfi virðulegs forseta:

„Fjárlaganefnd. Nefndin fjallar um fjármál ríkisins, fjárveitingar, eignir ríkisins, lánsheimildir og ríkisábyrgðir og lífeyrismál.“ — Þarna er hlutverk nefndarinnar nokkuð vel skilgreint. Síðan er haldið áfram og sagt: „Nefndin veitir efnahags- og viðskiptanefnd umsögn um þingmál er varða tekjuhlið fjárlaga.“

Nú er það svo að þetta mál og fleiri mál sem verða til umræðu á þessum þingfundi og þingfundum næstu daga varða tekjuhlið fjárlaga beint, en ekkert bólar á umsögn fjárlaganefndar sem hefði verið mjög gagnleg og ekki bara gagnleg heldur nauðsynleg til að liðsmenn efnahags- og viðskiptanefndar gerðu sér fullkomlega grein fyrir hvaða áhrif þær miklu breytingar sem verið er að gera á frumvörpum sem snerta tekjuhlið fjárlaganna beint hefðu á tekjuhliðina. Þetta er bagalegt. Okkur var tilkynnt áðan af hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar að honum hefði verið tjáð að um þetta mál hefði verið fjallað í forsætisnefnd og á fundi þingflokksformanna stjórnmálaflokkanna sem sitja á Alþingi en síðan kannast þeir sem sátu þá fundi ekki við að þetta sé rétt. Ég ætla alls ekki að gefa í skyn að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Helgi Hjörvar, sem er mjög vandaður maður og nákvæmur, sé á einhvern hátt að snúa út úr þessum umkvörtunarefnum, heldur kenni ég því frekar um að þarna sé um einhvern misskilning að ræða.

Það er eitt sem 13. gr. þingskapa tekur ekki á. Hún segir ekki hvenær fjárlaganefnd eigi að gefa efnahags- og viðskiptanefnd umsögn um þingmál er varða tekjuhlið fjárlaga, en það er ekki ósanngjarnt að gera ráð fyrir því að það sé gert fyrir 2. umr. sem er aðalumræðan í þinginu um lagafrumvörp. Nóg um formsatriðin.

Ég ætla þá að snúa mér efnislega að þessu frumvarpi og reyndar frumvörpum sem tengjast þessu máli og tengjast beint tekjuhlið fjárlaganna. Ef við byrjum fyrst á forsendum fjárlaganna þá er fjárlagafrumvarpið grundvallað á þjóðhagsspá sem gerð var 8. júlí sl. og var síðan uppfærð 24. nóvember. Þar urðu þó nokkrar breytingar á þjóðhagsstærðum, breytingar sem höfðu bein áhrif á skattstofnana og tekjur ríkissjóðs.

Helstu breytingarnar eru þær að talið er að einkaneysla muni dragast saman eða verða 0,3% minni en gert var ráð fyrir í júlíspánni og samneyslan er talin verða 0,1% minni. Aftur á móti er talið að fjármunamyndunin verði meiri en gert var ráð fyrir í júlí og það er fyrst og fremst vegna fjárfestinga hins opinbera sem eru taldar verða 9,6% meiri en gert var ráð fyrir í júlí. Jafnframt er gert ráð fyrir að útflutningur vöru og þjónustu dragist saman um 1,9%, innflutningur um 1,5% og nettóáhrifin af þessu verði þau að í stað 3,1% hagvaxtar sem spáð var í júlí verði hagvöxtur 2,4% sem er 0,7% minni hagvöxtur. Inni í þeirri tölu er gert ráð fyrir að kísilver í Helguvík verði reist og er áætlað að um 0,2% af þessum 2,4% hagvexti verði vegna kísilvers þannig að án þess hefði hagvöxtur orðið 2,2% eða 0,9% minni en í júlí.

Þetta hefur margvísleg áhrif á skattgrunna ríkissjóðs og tekjur ríkissjóðs yfirleitt, en til er þumalputtaregla til að sjá hvaða afleiðingar minni hagvöxtur hefur á tekjur ríkissjóðs. Þumalputtareglan sem yfirleitt er notuð er sú að um 28% af hagvexti falli í skaut ríkissjóðs sem auknar tekjur. Það stafar af því að þegar um hagvöxt er að ræða eru tekjur meiri í þjóðfélaginu, borgaður er meiri tekjuskattur, borgaður er meiri virðisaukaskattur út af veltuaukningu og meiri tollar út af innflutningi o.s.frv. Allir þessir tekjustofnar ríkissjóðs frá hagvextinum streyma að einhverju leyti inn í ríkissjóð.

Ef við notum þessa þumalputtareglu, að það verði 0,7% minni hagvöxtur á næsta ári en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu, er ljóst að tekjur ríkissjóðs minnka um 3,1 milljarð frá því sem er í fjárlagafrumvarpinu. Jafnframt kemur hún, þó að við séum kannski ekki að ræða beint útgjaldahliðina, ósjálfrátt inn í vegna þess að því er spáð að atvinnuleysi verði 0,4% meira en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu sem þýðir að útgjöld ríkissjóðs, útgjöld af tryggingagjaldi sem atvinnulífið ber náttúrlega á endanum, verða meiri vegna atvinnuleysis og gert er ráð fyrir því, og það er meira að segja í leiðréttingum í fjárlagafrumvarpinu, að það geti orðið um 1,2 milljörðum meiri kostnaður vegna atvinnuleysis en upphaflega var gert ráð fyrir. Afkoman verður því í kringum 4,3 milljörðum verri, þar af er 3,1 milljarður vegna minni hagvaxtar beint, og þá er notuð áðurnefnd þumalputtaregla, og síðan atvinnuleysið.

Hagstofan endurmat, að beiðni fjármálaráðuneytisins, tekjuforsendurnar og þar blasir við nokkuð önnur mynd en ég hef hér dregið upp. Þar er gert ráð fyrir að vegna kjarasamninga sem gerðir voru í sumar muni launavísitala hækka meira en gert var ráð fyrir í júlíspánni og sú aukning muni leiða til 1,5 milljarða hækkunar á tekjum ríkissjóðs. Jafnframt að hækkun launavísitölu leiði til hækkunar tryggingagjalds sem leiði til 850 millj. kr. aukinna tekna og að verðbólga leiði til 500 millj. kr. aukinna tekna vegna þess að virðisaukaskattur hækkar. Það er algerlega samkvæmni í þessu, það er ljóst að ef laun hækka í landinu hækkar sá stofn sem greiddur er skattur af. Jafnframt ef verðbólga hækkar verða vörur að hækka sem þýðir það að stofninn sem virðisaukaskatturinn er greiddur af hækkar. Samtals er gert ráð fyrir að vegna þessara liða, tryggingagjaldsins, aukins tekjuskatts og aukins virðisaukaskatts, aukist heildartekjur um rúma 2,8 milljarða en minnki ekki um 3,1 milljarð eins og við í 1. minni hluta gerum ráð fyrir.

Við skulum skoða aðeins hvernig það megi vera að sá stofn sem tekjuskattur er reiknaður af hækkar þrátt fyrir að atvinnuleysi aukist um 0,4%. Í nefndaráliti sem 1. minni hluti leggur fram við 2. umr. voru gerðir útreikningar sem sýna fram á að þetta geti tæpast staðist vegna þess að kostnaðurinn vegna atvinnuleysisins sé mun meiri en tekjurnar sem koma inn vegna hækkandi launavísitölu. 1. minni hluti stendur því við þá staðhæfingu sína að tekjur ríkissjóðs minnki um 3,1 milljarð vegna minni hagvaxtar sem er annar en stofnanir ríkisins halda fram í áliti sem þær gáfu efnahags- og viðskiptanefnd. Þetta er um forsendurnar. Síðan er hægt að ræða forsendurnar fyrir hagvaxtarspánni en ég ætla ekki að gera það hér. Ég er þeirrar skoðunar að sú hagvaxtarspá sem kynnt var í nóvember sé vel gerð og forsendurnar þar séu ekki ótrúverðugar. Ég ætla því ekki að gera neina athugasemd við hana.

Þá um einstakar greinar frumvarpsins. Heilmiklar breytingar munu eiga sér stað bæði í þessu frumvarpi og tengdum frumvörpum, t.d. næsta mál sem er fjársýsluskatturinn, breytingar sem verða gerðar á lögum um stjórn fiskveiða vegna veiðileyfagjaldsins og svo lagafrumvarp sem hefur verið lagt fram vegna þátttöku lífeyrissjóða í vaxtabótum. Ef við förum aðeins yfir greinarnar hverja fyrir sig er þar um að ræða breytingar sem eru til bóta og breytingar sem að mati 1. minni hluta eru slæmar vegna þess að þær hafa áhrif bæði á ráðstöfunartekjur heimilanna og á atvinnulífið. Það eru byrðar á atvinnulífið sem munu leiða til minni fjárfestinga og lægra atvinnustigs og þar af leiðandi minni skattstofna fyrir ríkissjóð og meira atvinnuleysis.

Ef ég fer aðeins yfir þá þætti sem ég tel jákvæða í þessu frumvarpi og byrja fyrst á afdráttarskattinum svokallaða, sem er tæknilegt atriði, þá er jákvætt að lækka afdráttarskatt niður í 10%. Það er réttmætt hjá þeim sem flytja frumvarpið eða stjórnvöldum að benda á að hægt sé að endurskoða þennan skatt þannig að hann nái mun betur þeim tilgangi sem honum er ætlað án þess að skemma, eins og þessi skattur gerir, og er vísað þar í danskan rétt og skattumhverfi sem gildir um afdráttarskatta þar. Við sögðum það strax, sjálfstæðismenn, þegar þessi skattur var upphaflega innleiddur og bentum á að við ættum frekar að fara dönsku leiðina. Það er alltaf gott þegar menn átta sig á villu síns vegar. Því fagna ég því að ríkisstjórnin ætli að fara að tillögum okkar sjálfstæðismanna en bendi jafnframt á að það hefði átt að gera strax en taka ekki upp þann óþarfa skemmandi skatt sem farið var út í á sínum tíma sem hefur leitt til þess að erlendir aðilar með takmarkaða skattbyrði á Íslandi hafa flæmst úr landi og skattstofnarnir þar hafa dregist saman. Við verðum að vona að með tímanum komi þessir aðilar aftur til baka eða aðrir sambærilegir og við fáum skatttekjur af þeim.

Þá um lækkun á tryggingagjaldi. Það er mjög jákvætt að tryggingagjald sé að lækka, ekki bara ber það með sér þau skilaboð að atvinnuleysi sé að minnka heldur er tryggingagjald beinn skattur á vinnulaun og hækkar þann kostnað sem fyrirtækin standa frammi fyrir varðandi starfsfólk. Tryggingagjaldið sem er notað til að fjármagna atvinnuleysi er raunverulega atvinnuleysishvetjandi vegna þess að allur kostnaður sem leggst á launakostnað leiðir til þess að fyrirtæki reyna að hagræða hvað þau geta til að losna undan þessum kostnaði sem leiðir til þess að fólki er sagt upp og fyrirtækin eru ekki jafnviljug til að ráða nýja starfsmenn og ef þau væru án skattsins. Það er ljóst að þetta hefur engin stór áhrif en þetta gætu verið einhverjir tugir jafnvel hundruð starfa sem þarna koma til bara vegna þessarar lækkunar. En hafandi hrósað lækkun tryggingagjaldsins verð ég að segja að mér finnst gjaldið ekki hafa lækkað nóg vegna þess að atvinnuleysið hefur minnkað meira en lækkun tryggingagjaldsins ber með sér þannig að það hefði átt að lækka meira.

Þá er komið að svokölluðum tekjumörkum. Tekjumörkin eru tæknilegt heiti yfir skattþrepin. Það eru þrjú skattþrep á Íslandi. Í dag byrjar fólk að borga skatt af launum í kringum 209 þús. kr. og síðan hækkar hann á launum í kringum 400 og eitthvað þús. kr. og loks hækkar hann við 600 og eitthvað þús. kr. Þannig er mál með vexti að 90% launþega á Íslandi eru í 2. skattþrepi, 10% eru annaðhvort í 1. eða 3. skattþrepi. Obbinn af launþegum á Íslandi er því í 2. skattþrepi. Upphaflegar tillögur stóðu til þess að tekjumörkin eða efra og neðra þrepið mundu hækka um 3,5% en ekki um 8% eins og lög og reglur gera ráð fyrir. 8% er endurspeglun á hækkun launavísitölu en þrepin eiga að vera verðbætt miðað við hana. Þá var tekin ákvörðun um að skerða þessa hækkun og hún yrði einungis 3,5%. Jafnframt var gert ráð fyrir því að persónufrádráttur mundi hækka um 3,5%. Nú hefur þessu verið breytt þannig að 1. skattþrepið mun verða 230 þús. kr. sem er hækkun umfram launavísitölu. Að því leytinu til er ríkisstjórnin að gera betur við þá sem eru innan þrepsins og eru með einhverja þúsundkalla upp fyrir það en samt sem áður er skattbyrði að þyngjast vegna þess að í efra þrepinu eru eins og ég sagði áðan flestallir Íslendingar, 90% launþega eru í 2. skattþrepi, þannig að það mun virka sem aukin skattbyrði. Um þetta er deilt. Hæstv. fjármálaráðherra hélt því fram fyrr í dag í fyrirspurnatíma að tekjuskattsbyrðin væri ótvírætt að minnka. Forseti ASÍ tók undir það í fréttum í dag að tekjuskattsbyrðin væri að minnka en eins og ég hef rakið hér er það ekki rétt. Endurskoðendur hjá endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte & Touche fóru yfir þetta mál og þeir styðja þá skoðun að tekjuskattsbyrðin sé að aukast, ekki minnka eins og fjármálaráðherra og forseti ASÍ hafa haldið fram og reyndar hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar hélt fram í ræðu sinni áðan. En hvað um það. Þetta var um fjárhæðarmörkin.

Þá er komið að auðlegðarskatti. Í þessu frumvarpi er lagt til að auðlegðarskattur verði þrepaskiptur og að efra þrepið verði hækkað. Margir hafa haldið því fram í þjóðfélagsumræðunni að þetta muni hrekja efnamenn úr landi, fólk sem er ekki launþegar heldur lifir eingöngu á eignum sínum. Það getur verið fólk sem er komið á eftirlaun en það geta líka verið ýmiss konar fjárfestar. Það hefur verið nokkuð hávær umræða um að auðlegðarskatturinn hreki þetta fólk úr landi vegna þess að það vilji einfaldlega sleppa undan því að borga skattinn og bent hefur verið á að þessi þrepaskipting muni enn auka á þann þrýsting að fólk flytji úr landi. Vegna þessa var fjármálaráðuneytið beðið um að kanna fyrir nefndina hversu margir einstaklingar sem greiða auðlindaskatt hafi flutt úr landi frá áramótum. Embætti ríkisskattstjóra framkvæmdi einhverjar tölvukeyrslur og komst að því að 28 einstaklingar sem borga auðlegðarskatt hefðu flutt úr landi og að þetta fólk hefði borgað 51 milljón á þessu ári í auðlegðarskatt. Þetta hljómar svo sem ekki mjög illa og fljótt á litið gæti mönnum virst að þetta væri ekki það áhyggjuefni sem þjóðfélagsumræðan hefur borið með sér en það er ekki allt sem sýnist í þeim efnum. Í fyrsta lagi er verið að hækka skattinn og þrepaskipta honum þannig að hvatinn fyrir þetta fólk eykst. Í öðru lagi hefur verið bent á að það sé flutningur úr landi og síst meiri flutningur sé hjá þessum hópi en öðrum hópum.

Þá ber að hafa í huga að víst er flutningur úr landi, það er straumur sem nemur, að mér skilst, einni langferðabifreið á viku þessa dagana úr landi. Þetta er fólk sem er að leita sér að vinnu erlendis, er að fara í skóla og slíkt og er einfaldlega að hverfa af íslenskum vinnumarkaði. Það fólk sem greiðir auðlegðarskattinn er ekki fólk sem er að leita sér að vinnu, það er ekki að flytja úr landi til að leita sér að vinnu. Þetta fólk er fyrst og fremst að hverfa úr landi til að losna undan þessari skattbyrði. Eins og ég sagði áðan virðist þetta ekki vera há upphæð, 51 milljón, en stofninn ber til kynna að þetta fólk sé að fara með 3,6 milljarða úr landi eða gera þá að óvirkum fjárfestingum. Þrátt fyrir að þetta sé fátt fólk fylgja því miklir fjármunir. Að vísu getur það ekki flutt þá alla úr landi strax út af gjaldeyrishöftunum en eins og ég segi eykst mjög þrýstingurinn á að efnaðir einstaklingar flytji úr landi.

Annar vinkill er á þessu máli og það er vinkill sem við í Sjálfstæðisflokknum bentum á í viðskipta- og skattanefnd á sínum tíma. Hann er sá að eignarskattur sem tekur ekkert tillit til arðs eða tekna, þ.e. arðs af eignum eða tekjum einstaklingsins, sé eignaupptaka. Er mjög sennilegt að sama gildi á Íslandi og gilti til dæmis í Þýskalandi, sem ég mun fara aðeins betur yfir á eftir, að þetta sé brot á 72. gr. stjórnarskrárinnar um eignarrétt, að þetta sé hrein og klár eignaupptaka.

Eins og hv. formaður efnahags- og skattanefndar talaði um í ræðu sinni á undan mér áðan höfum við í 1. minni hluta óskað eftir því að á fund nefndarinnar komi lögfræðingur að nafni Hróbjartur Jónatansson og upplýsi okkur um grein sem hann skrifaði í dag. Þessi grein er yfirferð á því hvernig eignarskattsinnheimtu er háttað í nágrannalöndum okkar. Niðurstaða hans er sú að þar sé engin fyrirmynd. Hann bendir á það dæmi sem ég minntist aðeins á áðan, að fyrir nokkru fór einstaklingur sem þurfti að borga eignarskatta í Þýskalandi í mál við þýska ríkið og niðurstaða hæstaréttar í Þýskalandi varð sú að um væri að ræða brot á ákvæðum þýsku stjórnarskrárinnar um eignarrétt og þetta væri ígildi upptöku eigna. Í kjölfarið voru eignarskattar afnumdir í Þýskalandi.

Hróbjartur Jónatansson gengur kannski aðeins lengra en gengið hefur verið hingað til í þessari umræðu með því að segja að þessi eignarskattur eins og hann er lagður á jafngildi þeim sköttum sem voru lagðir á í Austur-Evrópu eftir stríð þar sem kommúnistar, eins og hann orðar það, voru að teygja sig í eignir smáborgaranna sjálfsagt og stórborgaranna og það þótti ígildi eignaupptöku.

Þessi þrepaskipting er afleit og framlenging auðlegðarskatts um eitt ár er liður í því að við sköpum enn meiri þrýsting á að fólk flytji úr landi til að sleppa undan þessum sköttum.

Þá er komið að lækkun á frádrætti vegna séreignarlífeyrissparnaðar. Í frumvarpinu er lagt til að eftir gildistöku þessa ákvæðis eða eftir 1. janúar nk. verði lífeyrissjóðum og þeim sem stunda vörslu séreignarlífeyrissparnaðar óheimilt að taka á móti meira en 2% frá fólki til að leggja inn á séreignarlífeyrissparnað nema fólk sætti sig við að það sem er umfram sé tekjuskattlagt. Afleiðingarnar af þessu eru þær að þetta mun minnka sparnað, það er augljóst. Ef fólk má ekki nota eitthvert sparnaðarform án þess að vera skattlagt er augljóst að það notar það ekki. Það sem sparnaður gerir er að standa undir fjárfestingu og að til sé smurning til að smyrja efnahagslífið. Þessi breyting á skattframkvæmd í sambandi við séreignarlífeyrissparnað mun minnka sparnað og að öllum líkindum fjárfestingu til langframa sem mun á endanum leiða til verri lífskjara.

Mikið átak var gert á 10. áratug síðustu aldar þegar séreignarsparnaðarlífeyrir var innleiddur á Íslandi. Aðilar vinnumarkaðarins og hið opinbera fóru í þetta átak til að fá fólk til að nýta sér þetta sparnaðarform. Þetta var gert til að lífeyrir í framtíðinni yrði ríflegri en á horfði og í þeim göfuga tilgangi að forða fólki frá því að lenda í fátækt eftir að starfsævinni lyki. Hér er gengið á móti þessum markmiðum en eftir meðferð nefndarinnar verður að segjast að það högg sem leit út fyrir hefur verið mildað nokkuð. Það hefur verið mildað með því að þetta ákvæði gildir í þrjú ár og frádráttur hækkar sjálfkrafa upp í 4% aftur og það mun þá minnka hvatann fyrir fólk til að fara frá þessu sparnaðarformi.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé ákaflega slæmt að fara út í þetta í þeim eina tilgangi að auka neyslu og halda áfram uppi hagvexti sem byggir á því að fólk noti sparnað sinn þegar við eigum fyrst og fremst að halda uppi hagvexti og sterkum tekjustofni fyrir ríkið með því að hvetja til fjárfestingar sem örvar hagvöxt og minnkar atvinnuleysi.

Kolefnisgjaldið eða kolefnaskatturinn sem átti að innleiða hefði haft gríðarlega alvarlegar afleiðingar í för með sér. Kolefnisgjaldið á fast efni átti að leggjast á aðföng til stóriðju, kol og koks, og hefði, eftir að hið svokallaða viðskiptakerfi Evrópusambandsins hefði verið innleitt á Íslandi sem á að gerast í upphafi árs 2013, leitt til samkeppnisstöðu sem hefði verið algerlega óásættanleg fyrir íslensk stór iðnfyrirtæki, þ.e. að gjöld og skattar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda hefðu verið mun hærri á Íslandi. Enda kom það í ljós þegar skatturinn var kynntur að þetta hefði leitt til þess að Elkem hefði þurft að loka verksmiðju sinni eftir einhvern tíma, þetta hefði leitt til þess að kísilver sem fyrirhugað var að reisa á Íslandi hefði verið sett í algert uppnám. En það er mjög gleðilegt að fallið hefur verið frá þessu og við þurfum ekki að upplifa það að vegna klaufalegrar hönnunar á íslenska skattkerfinu hefði atvinnulíf hér á landi orðið verr statt en sambærilegt atvinnulíf innan Evrópusambandsins.

Í þessu frumvarpi er jafnframt boðað að kolefnaskattar á eldsneyti verði hækkaðir. Í byrjun þessa árs voru hækkaðir kolefnaskattar á fljótandi eldsneyti. Var það gert í þeirri viðleitni að aðlaga Ísland að stefnu Evrópusambandsins, þ.e. að koma smánotendum á Íslandi inn í kerfi sem er til hliðar við ETS-kerfið, þ.e. í hið svokallaða Effort Sharing kerfi, þar sem menn greiða fyrir mengun í hlutfalli við það sem þeir nota af eldsneytisgjöfum. Sagt var að gjaldið væri 75% af því sem tíðkaðist í Evrópu árið 2009. Nú er boðað að innheimta skuli gjaldið að fullu líkt og gert er í Evrópu og lagt til að gjaldið verði hækkað um 32% og eftir það er sagt að við verðum algerlega sambærileg við Evrópu. En svo fer maður að skoða málið betur og þá eru eins og svo oft með skattatillögur ríkisstjórnarinnar einhverjir hnökrar á málinu.

Þegar gjaldið var upphaflega lagt á var verð á kolefnakvóta 30% hærra en það er núna. Kolefnakvóti hefur lækkað í ETS-kerfinu vegna minni efnahagsumsvifa og minni eftirspurnar eftir mengunarkvótum í kjölfar efnahagslægðarinnar. Ef það sem talað er um í þessu frumvarpi verður að veruleika mun fljótandi eldsneyti á Íslandi bera rúmlega 30% hærri mengunarskatt en tíðkast í Evrópusambandinu. Hvaða afleiðingar hefur það? Það hefur þær afleiðingar að verð á bensíni og dísli muna hækka sem því nemur verði frumvarpið að lögum. Vegna kolefnisgjalda og virðisauka sem leggst á þau verður lítri af bensíni 6,3 kr. dýrari en ella og dísill 7,2 kr. dýrari. Verðlagsáhrifin af þessu eru talin vera í kringum 0,2%, þ.e. verðbólga eykst um 0,2% vegna þessa. Ef íslensk fyrirtæki og heimili eru með verðtryggðar skuldir sem gætu verið 2.000 milljónir eða eitthvað svoleiðis, gætu skuldirnar hækkað upp í allt að 4 milljarða bara vegna þess að ríkisstjórnin er að leggja á mengunarskatta sem eru 30% hærri en innan Evrópusambandsins. Um leið segja talsmenn ríkisstjórnarinnar að eingöngu sé verið að færa hlutina til sama horfs og er innan Evrópusambandsins. En eins og ég sagði virðist þurfa að skoða allt með stækkunargleri sem sagt er í sambandi við skattahækkanir á Íslandi í tíð þessarar ríkisstjórnar og alltaf skal maður finna einhverja hnökra á því.

Þá eru lagðar til hækkanir á áfengis- og tóbaksgjöldum og neftóbaki. Á Alþingi eru margir neftóbaksneytendur þannig að við munum fljótt sjá hvort alþingismenn bregðast við þessari hækkun með því að minnka neftóbaksinntöku sína, en ef frumvarpið verður að lögum hækkar neftóbaksdósin úr rúmlega 700 kr. í tæplega 1.000 kr.

Þetta er það sem kemur beint fram í frumvarpinu en önnur frumvörp hanga utan á þessu öllu, hanga utan á tekjuhlið ríkissjóðs. Þar ber kannski fyrst að nefna veiðileyfagjaldið. Lagt er til að veiðileyfagjald hækki um 4,5 milljarða og fari upp í, mig minnir að það sé þá komið upp undir 9 milljarða, eða hvort það eru 7 milljarðar, ég skal ekki alveg sverja fyrir það. (Gripið fram í.) 9, kallar þingmaður utan úr sal, Lilja Mósesdóttir. Þakka þér fyrir, hv. þingmaður. Þetta er gert þrátt fyrir að engin sátt sé í sjónmáli um fiskveiðistjórnarkerfið. (Gripið fram í: Nákvæmlega.) Fiskveiðistjórnarkerfið hefur verið í endurskoðun og í þeim tilgangi að reyna að ná fram sátt var sett á laggirnar svokölluð sáttanefnd sem skilaði af sér tillögum í fyrravor, minnir mig að hafi verið, eða í fyrravetur. Lausn sem byggði á því að gerðir yrðu nýtingarsamningar við útvegsmenn og fyrir þá nýtingarsamninga mundu þeir greiða eitthvað sem héti veiðileyfagjald. Þeir sem fylgjast með störfum Alþingis vita að um þetta hefur staðið mikil deila, en lögð hafa verið fram frumvörp sem dagað hafa uppi í miklum ágreiningi í þinginu. Þrátt fyrir þetta er farið að öðrum hluta tillögu samninganefndarinnar, þ.e. þau gjöld sem sjávarútvegurinn á að greiða eru hækkuð án þess að nokkur sátt sé í sjónmáli, og það hlýtur að vera algjörlega óásættanlegt fyrir þessa undirstöðuatvinnugrein okkar Íslendinga, sjávarútveginn, að þetta sé allt í uppnámi.

Þá er hér annað mál sem virðist vera að skapast mikil deila um og mikil ósátt. Það er sú hugmynd að til að standa undir fjármögnun á sérstökum vaxtabótum, sem við sjálfstæðismenn studdum á sínum tíma og erum mjög sammála — þetta var hluti af efnahagstillögum okkar á sínum tíma að greiða skyldi sérstakar vaxtabætur til að koma til móts við það áfall sem fólk varð fyrir í kjölfar hrunsins þegar skuldir stökkbreyttust — verði farið að skattleggja lífeyrisréttindi fólks. Það gæti verið brot á 72. gr. stjórnarskrárinnar en það sem meira er, þetta leiðir til þess að lífeyrisgreiðslur verða lægri í framtíðinni. Það er sama hvar borið er niður, alltaf er höggvið í sama knérunn, þ.e. klipið af lífeyrissjóðunum hvar sem hægt er að klípa.

Samtök atvinnulífsins hafa lagst mjög gegn þessari skattlagningu og meira að segja gekk forsvarsmaður Samtaka launþega svo langt á fundi nefndarinnar að lýsa því yfir að farið yrði í dómsmál við ríkið til að rifta þessu, og það yrði gert á grundvelli þess að hér væri um eignaupptöku að ræða og verið væri að skerða eignarréttindi sjóðfélaga.

Það er ekki svo að lífeyrissjóðirnir eigi peninga. Þeir halda utan um réttindi fólks og lífeyrisréttindi fólks eru fjármögnuð með eignum sem því miður urðu fyrir þó nokkuð miklu hnjaski í hruninu þannig að það sem er verið að gera með þessari skattlagningu er bein skattlagning á lífeyrisréttindi fólks. Og það er ómögulega hægt að samþykkja, ómögulega. Þessa fjármögnun á vaxtabótum verður að fjármagna á einhvern annan hátt en að ráðast að réttindum fólksins í landinu. Það er náttúrlega auðvelt að standa í ræðustól á Alþingi og gagnrýna tekjuöflunarleiðir ríkisstjórnarflokkanna en það vill bara svo til að Sjálfstæðisflokkurinn hefur sett fram viðamiklar efnahagstillögur sem útvega ríkissjóði þær tekjur sem þarf til að þurfa ekki að fara út í svona hluti.

Það sem ég ætla að gera að umtalsefni að síðustu er fjársýsluskatturinn svokallaði sem ríkisstjórnin sagði að ætti að leggja á að danskri fyrirmynd, og jafnvel franskri, og þar sem fjármálafyrirtækin séu ekki virðisaukaskattsskyld þurfi að gera eitthvað í því máli og því ætti að leggja á fjársýsluskatt. Þessi fjársýsluskattur átti að vera 10,5% á laun og sagt var að þannig gerðu Danir þetta. Það er samt þannig að skatturinn í Danmörku hefur ekki verið nema 9%, hann á að vísu að hækka á næsta ári, en það sem meira er, þegar fjársýsluskattur var lagður á í Danmörku var launaskattur afnuminn um leið. Launaskatturinn hér á landi sem er til að fjármagna atvinnuleysisbætur nemur 8,5% þannig að ef þetta hefði orðið raunin hefðu verið 19% bara í þessa tvo liði hérna, (Gripið fram í.) fyrir utan allan annan starfsmannakostnað. Þetta hefði leitt til þess að launakostnaður fjármálafyrirtækjanna hefði hækkað mjög, þau hefðu þurft að segja upp starfsfólki og hagræða og það sem við þurfum síst núna, þrátt fyrir að þetta hefði hugsanlega getað orðið hagkvæmt að einhverju leyti, er að fá fleiri á atvinnuleysisskrá. Það sem verra var, þetta lagðist mjög á vissa tegund starfsmanna, svo maður noti þá ópersónulegu lýsingu, konur í útibúum sérstaklega á landsbyggðinni. Bankarnir hafa haldið uppi útibúum með hundshaus og þarna hefðu þeir getað fengið afsökun fyrir að slá útibúin af og sagt fólkinu að fara bara í heimabankann sinn.

Sem betur fer hefur verið snúið af þessari leið að einhverju leyti. Lífeyrissjóðirnir hafa verið teknir út úr þessu og maður spyr sig hvort það skapi ekki eitthvert ójafnvægi milli lífeyrissjóða sem eru starfræktir inni í bankakerfi og þeirra sem eru starfræktir utan bankakerfis. Skatturinn á launin hefur verið lækkaður niður í 5,45% og til að mæta því tekjutapi hefur verið ákveðið að skattleggja það sem er kallað umframhagnaður í bankakerfinu sem er ekki það sem við tölum venjulega um sem umframhagnað í hagfræðinni, heldur hagnaður í stóru bönkunum sem er yfir milljarður á stofnun. Hann verður skattlagður um 6% og miðað við áætlanir á það að ná inn tekjunum. En það sem meira er, það hefur verið viðrað í þessu sambandi að til að bæta fjármálastofnunum að einhverju leyti upp þann kostnaðarauka sem þær verða óneitanlega fyrir við að taka upp allt þetta kerfi verði greiðslur þeirra í tryggingarinnstæðusjóð minnkaðar um 1,2 milljarða, en það verður tekið til umræðu í byrjun næsta árs. Búið er að gefa ádrátt um það en hvernig þetta verður að lokum er ómögulegt að segja til um. Þrátt fyrir að þetta horfi til bóta fyrir fjármálafyrirtækin er algjörlega ljóst að launaskatturinn og skatturinn á hagnaðinn mun leiða til þess að það verður hagræðing í starfsmannahaldi í kjölfarið, ekki jafnmikil og sá skattur sem lagt var upp með hefði leitt til en samt sem áður verður hagræðing og tíminn einn mun leiða í ljós hversu mikil hún verður og hversu stór áhrif það hefur á atvinnuleysi á Íslandi.

Að svo mæltu held ég að ég hafi nokkurn veginn lokið yfirferð minni yfir þetta frumvarp. Það er ljóst að tekjuhlið fjárlaganna er brothætt og margar forsendur undir tekjuhliðinni eru býsna djarfar. Það eina sem maður getur raunverulega gert er að bíða og vona að þetta standist þannig að hér verði ekki um að ræða stóraukinn halla frá því sem nú hefur verið ákveðið í fjárlögum og þetta blessist allt saman einhvern veginn.