140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[16:16]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þá heyrist mér við hv. þingmaður vera sammála um að í fjárlagafrumvarpinu eins og það var samþykkt og í því áliti sem meiri hluti fjárlaganefndar lagði fram við það liggi að minnsta kosti afstaða meiri hluta fjárlaganefndar til þess hve tekjurnar þurfa að vera miklar, þar með talið í gegnum það frumvarp sem hér er til umfjöllunar um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Nákvæmlega hvernig það er útfært er auðvitað verkefni efnahags- og viðskiptanefndar. Hún hefur verið að glíma við það.

Að sjálfsögðu má líka hugsa sér, eftir að fjárlaganefnd hefur séð samþykktar breytingar á þessu lagafrumvarpi og hvernig dæmið lítur út að lokinni 2. umr., að þá kæmi nefndin hugsanlega með eitthvert álit á stöðunni fyrir 3. umr. Auðvitað má hugsa sér það. Sem fjárlaganefndarmaður get ég alveg hugsað mér að þannig væri staðið að málum. Í mínum huga er aðalatriðið að meiri hluti fjárlaganefndar hefur í raun og veru sagt hvaða tekjur þurfa að koma inn í gegnum það frumvarp sem hér er til umfjöllunar, (Forseti hringir.) en útfærslan á að vera á hendi efnahags- og viðskiptaráðuneytisins.