140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[16:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er árvisst að við hv. þingmaður skiptumst hér á skoðunum um tekjuhlið fjárlaga fyrir komandi ár. Við þær umræður fyrir ári síðan taldi hv. þingmaður, með líkum hætti og nú, að tekjuhliðin á komandi ári væri mjög brothætt og þær spár sem frumvarpið byggði á væru of bjartsýnar. Réttara væri að horfa til þeirrar spár sem þá var komin frá OECD um umtalsvert minni hagvöxt, hjá Evrópusambandinu hygg ég, og frá Íslandsbanka, þ.e. að hagvöxtur á þessu ári yrði talsvert minni en ætlað var í forsendum fjárlaga fyrir árið 2011, eða kannski um 1%.

Ég vil þess vegna fyrst inna hv. þingmann eftir því hvort við getum nú í árslok ekki glaðst saman yfir því að þær forsendur sem lagt var upp með við síðustu umræðu sem við áttum um þetta efni hafi haldið og þær tölur sem við höfum um hagvöxt núna í desember á þessu ári bendi til að hann verði umtalsvert og raunar verulega meiri en hv. þingmaður taldi og hafði áhyggjur af við þessa sömu umræðu fyrir ári síðan.

Síðan vildi ég spyrja hv. þingmann um tekjuskattsþrepin, hvort við séum ekki sammála um að launamaður með meðaltekjur sem nú munu vera um 380 þús. kr. á mánuði, muni á næsta ári greiða í mánuði hverjum rúmlega 2 þús. kr. minna vegna hækkunar persónuafsláttar og um 600 kr. minna vegna 10% hækkunar á lægsta þrepinu. Það gerir tæplega 3 þús. kr. minna á mánuði í skatta og á fimmta tug þúsunda yfir árið en hann hefur gert á þessu ári ef laun hans eru óbreytt í krónutölu frá því sem þau eru í ár. (Forseti hringir.) Eru ekki skattar á sömu krónutölu launa á næsta ári nokkru lægri en þeir eru á þessu ári?