140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[16:27]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og fyrri daginn fer maður ekki í geitarhús að leita ullar hjá hv. formanni efnahags- og skattanefndar. Það er gott að hann hefur gott yfirlit yfir hvað ég sagði í þessum ræðustól fyrir einu ári.

Það er eitt sem hv. þingmaður minntist ekki á. Á milli 2. og 3. umr. í fyrra voru gerðar margvíslegar breytingar á þeim tillögum sem ríkisstjórnin lagði upp með og hvatt var til þeirra breytinga af hálfu stjórnarandstöðunnar. Hugsanlega hafa þær breytingar leitt til þess að ekki fór jafn illa og horfði.

Eins og ég sagði vona ég innilega að allar forsendur fjárlagafrumvarpsins standist vegna þess að ekki vil ég að halli á ríkissjóði verði meiri en spáð er. Ég sagði að ég óttaðist að tekjuhliðin væri brothætt. En auðvitað óska ég þess að þetta rætist allt saman og allt hafist þetta einhvern veginn.

Í tekjuskattsþrepunum er mikilvægt að gera greinarmun á raun- og nafnstærðum. Ef talað er um raunstærðir er ljóst að skattbyrðin mun þyngjast. Hún mun ekki þyngjast mikið fyrir þann sem er með 380 þús. kr. í laun, það gætu verið einhverjir hundraðþúsundkallar, ég er ekki alveg með tölurnar á takteinum. Það er mikilvægt líka að gera sér grein fyrir að meðallaun í landinu eru ekki 380 þús. kr. heldur nær 470 þús. kr. Við ættum því frekar að tala út frá þeirri tölu og þá er skattbyrðin ólíkt þyngri. (Forseti hringir.)