140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[17:37]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðlegðarskattur hefur borið nokkuð á góma í þessari umræðu í dag og jafnlítið og hv. þingmaður sem hér stendur er fylgjandi því að leggja á skatta og auka skatta í pólitík eða stjórnmálum yfirleitt er viðbúið að halli ríkissjóðs verði umtalsverður og því þarf að leita allra leiða til að ná inn tekjum.

Það eru sömuleiðis vonbrigði fyrir mig að Framsóknarflokkurinn skuli a.m.k. ekki íhuga það vandlega hvort ekki sé hyggilegt að leggja skatta á þá sem eiga umtalsverðar eignir í samfélagi okkar og geta þannig stutt við aðra og komið í veg fyrir að við þurfum að skera þjónustu enn meira niður. Við sjáum það t.d. í þeim gögnum sem kynnt voru fyrir nefndinni að um 4.500 einstaklingar borga auðlegðarskatt í landinu. Þessar tekjur eru u.þ.b. 7 milljarðar kr. Það er umtalsvert í því árferði sem við búum við. Fréttir um að einstaklingar séu að flytja af landi brott eru orðum auknar, vegna þess að í gögnum ríkisskattstjóra kemur fram að einungis 28 einstaklingar sem skiluðu 51 milljón í auðlegðarskatt fluttu af landinu á þessu ári. Í hinu stóra samhengi eru það ekki miklar upphæðir.

Hin norræna velferðarstjórn er að ná umtalsverðum árangri hér. Við sjáum það í hagvaxtartölum. Við sjáum það í þeim fjárlagahalla sem við höfum náð niður úr 216 milljörðum þegar við tókum við í upphafi árs 2009 en halli ríkissjóðs er áætlaður um 20 milljarðar á næsta ári. Við sjáum að við erum að ná að hækka laun hjá þeim sem minnst mega sín. Við sjáum að kaupmáttur er að aukast. Launavísitalan er að hækka. Atvinnuleysi er að minnka. Hagvaxtartölurnar eru næstum því Evrópumet. Við sjáum að hin norræna velferðarstjórn, sem er að breyta vöxtum í velferð, er svo sannarlega að standa sig í stykkinu. Það væri ánægjulegt ef Framsóknarflokkurinn mundi taka betur undir og fagna þeim árangri sem ríkisstjórnin hefur þó náð hingað til.