140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[18:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hún sagði að hún vildi ekki flækja kerfið af því að það væri óvinsælt, ég held að það sé einmitt vinsælt hjá núverandi stjórnarmeirihluta að flækja kerfið því að það stefnir allt í það að flækja það bara eins mikið og hægt er. Þessi breytingartillaga er örugglega í þeirra þágu.

Svo talaði hv. þingmaður um svarta atvinnustarfsemi og ég vil spyrja hana hvaðan hún hafi upplýsingar um þessar tölur. Ég efast ekki um að það er mikil svört atvinnustarfsemi, en hvaðan hefur hún þessar upplýsingar? Vonandi ekki úr skýrslunni sem var gerð fyrir nokkrum árum sem kóperaði hlutfall annars staðar að á Norðurlöndunum en kannaði ekkert hér á landi.

Síðan talaði hún mikið um gegnumstreymi og söfnun og það er mjög athyglisvert því að þetta er umræða sem á sér stað mjög víða. Til dæmis er talið að vandi Grikkja og margra annarra Evrópuþjóða sé vegna þess að það er svo auðvelt að lofa lífeyrisréttindum þegar það er gegnumstreymi. Þá bara byrjar maður á því að dúndra út loforðum og síðan borga einhverjar kynslóðir í framtíðinni — eða þá enginn eins og er í tilfelli Grikkja sem geta farið á lífeyri undir sextugu og jafnvel með mjög háan lífeyrisrétt miðað við tekjur.

Svo er það það að villa um fyrir skattgreiðendum. Hv. þingmaður sagði að það væri ekki gott. Með 50 þúsundkallinn sem borgaður var í sumar borguðu atvinnurekendur tæpan 60 þúsundkall vegna alls konar launatengdra gjalda. Launþeginn sá í hæsta skattþrepi ekki nema 37% af því sem atvinnurekandinn greiddi þannig að nú er svo komið að þeir sem eru umfram þessi mörk fá ekki nema rétt rúmlega þriðjunginn í eigin vasa. Þá eiga þeir eftir að borga af allri neyslu neysluskatta þannig að ég spyr hv. þingmann: Finnst honum ekki nóg að gert?