140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[18:21]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki nóg að gert? Það fer eftir því um hvaða tekjuhópa þú ert að ræða. Þegar kemur að tekjulágum og millitekjuhópunum þá erum við búin að ganga allt of langt í skattheimtu, ekki vegna þess að við höfum verið að hækka skatta á þessa hópa, heldur vegna þess að ráðstöfunartekjur þeirra hafa dregist verulega saman. Þessir hópar hafa þess vegna átt erfitt með að taka á sig þessar skattahækkanir.

Ég tel enn svigrúm til að taka á þeim sem eru með verulega háar tekjur hérna sem eru enn að hækka við sig tekjur, a.m.k. hvað varðar þær upplýsingar sem komu frá Hagstofunni sem sýna að þeir sem hækka mest í tekjum eru tekjuhæstu hóparnir.

Skýrslan sem ég ræddi um í framsögu minni, um svarta atvinnustarfsemi, var gerð á þessu ári, núna í haust, og er samstarfsverkefni milli ríkisskattstjóra og aðila vinnumarkaðarins þar sem tekið var úrtak lítilla og meðalstórra fyrirtækja og kannað hvort fyrirtæki og einstaklingar sem vinna þar væru að skila inn tekjuskatti og öðrum sköttum. Þetta eru nýjar upplýsingar og eins góðar og þær geta orðið varðandi svarta atvinnustarfsemi.

Gegnumstreymiskerfi, jú, þau eru náttúrlega varhugaverð þegar land býr við mikla spillingu eins og var í Grikklandi. Við mælumst ekki mjög hátt þegar kemur að spillingu. (Gripið fram í.) Þetta er líka miklu minna land þannig að það ætti að vera hægt að koma í veg fyrir spillingu með gegnsæi (Forseti hringir.) og ég tel það mjög æskilegt.