140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[18:25]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka það sem ég hef sagt áður, fólk er misvel í stakk búið til að greiða skatta. Það fer auðvitað eftir tekjunum. Ég vitna í rannsóknir sem sýna að þegar skattar eru hækkaðir dregur ekki úr atvinnuþátttöku vegna þess að langflestir þurfa að vinna til að sjá fyrir sér og (Gripið fram í.) — já, og síðan þegar þeir eru komnir með þær tekjur að þeir geta séð vel fyrir sér eða eiga (Gripið fram í.) vel fyrir framfærslukostnaði fer kannski viðbótin ekki að skipta þá jafnmiklu máli varðandi það að fá hana í vasann. (Gripið fram í.) Ég get getið þess hér að skattprósentan í efsta þrepinu til dæmis í Svíþjóð er hærri en 49%. Ef ég man rétt er hún um 55% og hún er líka eitthvað aðeins hærri í Danmörku. Þessi tvö lönd búa við norrænt velferðarkerfi sem byggir einmitt á því að fólk greiðir háa skatta en það fær ýmislegt á móti, það fær mjög mikið á móti. Það fær þjónustu þegar það þarf á henni að halda. Það er almennur réttur til hennar. Og það fær mjög háar bætur samanborið við laun.

Það kerfi virkar mjög vel. Atvinnuþátttaka í þessum löndum er með því mesta sem gerist í Evrópu þrátt fyrir háa skatta. Það hefur ekki verið neinn sérstakur atgervisflótti eða spekileki frá þessum löndum vegna hárra skatta.