140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[18:42]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það voru nokkur atriði sem hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi í andsvari, ekki beinlínis spurningar til mín heldur meira viðbrögð við ræðu minni, og ég þakka honum fyrir það. Hvað varðar það sem hann nefndi sérstaklega, um að það væri samhengi milli stöðunnar í útlöndum og hrunsins sem hér varð, er auðvitað samhengi í þeim hlutum. Við fórum ekkert varhluta af áhrifum hinnar alþjóðlegu efnahagskreppu sem reið yfir heiminn og er enn að ef svo má segja. Hitt er svo annað mál að ég tel að við Íslendingar höfum verið með undirliggjandi vanda í þjóðarbúskap okkar og efnahagsstjórn í mörg ár fyrir hrun einnig. Og að hér hafi verið allt á blússandi siglingu, það var kannski jákvætt að mörgu leyti en það er líka hættulegt að fara svo glannalega að menn ráði svo ekki neitt við neitt þegar áföllin dynja yfir. Ég tel sem sagt að það hafi verið undirliggjandi vandi, viðskiptahallinn mjög mikill, neysla var hér mjög mikil og að miklu leyti tekin fyrir fjármuni sem í raun var ekki innstæða fyrir. Ég tel að við höfum alls ekki búið okkur vel í haginn hvað það snertir og þess vegna hafi áhrifin hér verið eins mikil og þau raunverulega urðu.

Hvað varðar áhyggjuefni um stöðu atvinnumálanna gat ég um það sérstaklega að ég teldi að stærsta viðfangsefni hjá okkur í stjórn efnahagsmála væri atvinnuástandið. Ég hef að sjálfsögðu miklar áhyggjur af því, það höfum við öll. Ég tel hins vegar að það að ná stjórn á þjóðarskútunni, eins og núverandi ríkisstjórn hefur tekist að gera, sé mikilvæg forsenda fyrir því að hægt sé að byggja upp og auka atvinnustigið í landinu.