140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[19:44]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr um skattlagningu á lífeyrissjóðina sem prinsippmál. Ég hlýt að benda á það að hér er um tímabundna ráðstöfun að ræða. Ég tel eðlilegt í samræmi við það samkomulag sem gert var á sínum tíma, fyrir réttu ári, að lífeyrissjóðirnir komi með einhverjum hætti að þeirri fjármögnun sem öllum var ljóst á þeim tíma, og þeir skrifuðu sjálfir upp á, að þyrfti að fara út í til þess að fjármagna þessar sérstöku vaxtabætur.

Ég er á því að við eigum ekki að taka upp það fyrirkomulag til framtíðar að skattleggja lífeyrissjóðina en við verðum að tryggja að samkomulagið sem menn gerðu á sínum tíma, í desember 2010, nái fram að ganga þannig að ríkisvaldið, fjármálafyrirtækin og lífeyrissjóðirnir deili þessum byrðum.