140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[19:49]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þetta með prinsippmálin, ég er í prinsippinu þeirrar skoðunar að það sé afar mikilvægt að menn standi við gerða samninga. Það samkomulag sem gert var í desember 2010 gekk út á það að deila þessum byrðum, að sú aðgerð að fara út í sérstakar vaxtabætur til almennings í landinu yrði fjármögnuð af þessum aðilum sameiginlega, ríkisvaldinu, lífeyrissjóðunum og bönkunum. Ég tel að menn eigi í prinsippinu að virða slíkan samning og það sé ekkert í spilunum annað en að gera það með þessum hætti.

Menn hafa vitað það megnið af þessu ári að það væri þrautalendingin, ef menn næðu ekki saman um aðrar útfærslur, að fara þá leið sem boðuð er í frumvarpinu. Ég hefði kosið að menn hefðu fundið aðra leið og er ekki úrkula vonar um að hægt sé að finna einhverja þá útfærslu sem báðir aðilar geta lifað með. Við verðum að sjá hverju fram vindur á næstu dögum í því efni.