140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[19:50]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans í þessa umræðu og líka fyrir samstarfið í nefndinni þótt við séum ósammála um margt sem tengist afgreiðslu þessa máls. Mér fannst dálítið athyglisvert að heyra hv. þingmann ræða um þessa skattlagningu á lífeyrissjóðakerfið í landinu sem mun að öllu óbreyttu leiða til þess að almennu lífeyrissjóðirnir þurfa að skerða kjör aldraðra og öryrkja ef fer fram sem horfir. Ég fagna því þó að hv. þingmaður opnaði á það að mögulega væri hægt að finna aðra lausn á þessu máli. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé þá reiðubúinn að ræða þessi mál betur milli 2. og 3. umr., þegar málið fer aftur til nefndar, og finna einhverja viðunandi lausn.

Það er ekki viðunandi að horfa upp á það að hluti lífeyrisþega þurfi að verða fyrir skerðingu á kjörum sínum með þessum hætti.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann, af því að hann er í ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferð, hvort það sé norræn velferð að á næsta ári, samkvæmt þessu frumvarpi, muni kjör aldraðra og öryrkja skerðast að raungildi. Er það í takt við stefnu Samfylkingarinnar eða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs? Hv. þingmaður þarf svo sem ekki að svara fyrir VG hér, en er þetta í anda hinnar norrænu velferðar? Og finnst hv. þingmanni frysting tiltekinna bótaflokka, eins og mæðra- og feðralauna, umönnunargreiðslna, barnalífeyris vegna menntunar eða uppbætur vegna reksturs bifreiða og bifreiðakaupa, eðlileg? Metur hv. þingmaður þá stöðu mála þannig að ekki þurfi að auka þarna við, að aldraðir og öryrkjar séu nokkuð vel að sínum kjörum komnir og það þurfi hreint og beint ekkert að hækka þessa bótaflokka og eigi að skera þá niður sem jafngildir 5–6% að raungildi ef fram heldur sem horfir?