140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[19:52]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir fyrirspurnina sem er, eins og þær fyrri, mikilvæg. Hún kemur inn á kjarnann í stefnu okkar í velferðarmálum og hve mikilvægt það er að við séum með kúrsinn vel skilgreindan, að við vitum á hvaða vegferð við erum. Ég vil draga fram í þessu samhengi að ég tel að þessi norræna velferðarstjórn hafi gert mjög góða hluti við bæði ellilífeyrisþega og öryrkja frá því hún tók við. Staðreyndirnar eru mjög skýrar, lífeyrir og bætur í velferðarkerfinu hafa hækkað um 8 milljarða kr. í ár og þegar við skoðum allt þetta tímabil, frá því sumarið 2008 og til þessa dags, sjáum við að lágmarksbætur hafa hækkað um tæp 50% á þessu tímabili, (Gripið fram í.) á sama tíma og verðlag hefur hækkað um 23%. Við sjáum að lágmarksbæturnar eru að hækka verulega umfram verðlag og verulega umfram launavísitölu sem hefur hækkað þarna um ríflega 20%. Mér sýnist að þetta sé um það bil 25–27% hækkun umfram launavísitölu á þessu tímabili þannig að ég held að við getum ekki haldið því fram að ríkisstjórnin hafi staðið sig illa þegar kemur að kjörum öryrkja og ellilífeyrisþega. Þvert á móti virðast staðreyndirnar tala sínu máli.