140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[20:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans í þessa umræðu og ég tek undir það með honum að rót vandans er að sjálfsögðu sú að það gengur svo hægt að koma hjólum efnahagslífsins aftur af stað. Við horfum upp á það að fjárfesting er í sögulegu lágmarki, hún er 13% á meðan meðaltal síðustu áratuga er um 21%.

Ég ætla að leiðrétta það sem ég fór fram með í nefndaráliti mínu, sem ég gerði að ég held fyrir tveimur dögum. Þar taldi ég að breytingar á skattalögum frá því þessi ríkisstjórn tók við væru 140, það er víst komið upp í 142 breytingar á skattkerfinu síðan þá þannig að ég biðst velvirðingar á því. En það eru heilmiklar breytingar sem eiga sér stað hjá ríkisstjórninni þegar kemur að grundvallarmálum eins og skattkerfinu og þar er kannski kjarni málsins. Kjarni málsins er sá að ríkisstjórnin hefur lítinn trúverðugleika þegar kemur að því að skapa atvinnulífinu það svigrúm sem það þarf til þess að fara að fjölga störfum hér á landi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um ummæli hæstv. forsætisráðherra frá því í morgun, að það sé ekkert óeðlilegt að sjö manns flytjist til Noregs á hverjum degi, að þetta sé bara eðlilegt ástand. Ég minni á að þar er um að ræða fólk sem er að flytja lögheimili sitt, við erum að tala um margfalt stærri hóp þegar kemur að því fólki sem fer tímabundið, m.a. til Noregs, til að ala önn fyrir fjölskyldu sinni, fjölskyldufaðir eða móðir fara út kannski í tvo til þrjá mánuði án þess að flytja lögheimilið.

Maður veltir því fyrir sér, og ég spyr hv. þingmann, hvort hann telji að hæstv. forsætisráðherra sé ekki í raun og veru að gera frekar lítið úr þeim vanda sem blasir við okkur á þessu sviði og þá vitna ég til orða hans um það sem gerðist í Færeyjum í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar.