140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[20:39]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvað mér finnist um ummæli hæstv. forsætisráðherra, þess efnis að það sé tiltölulega lítið mál að sjö manns flytji héðan á degi hverjum til Noregs. Svar mitt er einfaldlega: Þetta er lýsandi, mjög lýsandi fyrir sjónarmið hæstv. ríkisstjórnar.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson sat með mér í hv. efnahags- og viðskiptanefnd fyrir nokkrum dögum þegar hingað komu aðilar sem búnir voru að undirbúa fjárfestingu í landinu svo mánuðum eða árum skipti, að koma hingað með stóra fjárfestingu til að skapa störf. Þeir voru örvæntingarfullir vegna þess að hæstv. ríkisstjórn var komin fram með nýjar hugmyndir um skattlagningu sem hefði rústað öllum þeim hugmyndum.

Vandinn er ekki sá að tækifæri vanti í þessu landi, vandinn er hæstv. ríkisstjórn. Hún hefur með skipulegum hætti komið í veg fyrir að hér verði fjárfestingar. Mörg þeirra tækifæra sem voru til staðar eru farin og óljóst hvort þau skapist aftur. Því fleiri sem flytjast til Noregs þeim mun færri verða tækifærin hjá okkur. Því fleiri heilbrigðisstarfsmenn sem fara til annarra landa þeim mun minni líkur eru á að við getum nýtt þá ónotuðu aðstöðu sem við erum með, t.d. í Keflavík. Hæstv. ríkisstjórn kom sérstaklega í veg fyrir að hægt væri að nýta þá aðstöðu til að skapa störf og tekjur á Íslandi.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður benti á tvennt. Hann benti á 142 skattalagabreytingar, engin til einföldunar, lofa ég; 13% fjárfesting hér, sem að meðaltali hefur verið 21%. Eftir áfall eins og við höfum orðið fyrir eykst fjárfesting vanalega.