140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[20:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður vitnaði til þess að við sitjum saman í efnahags- og viðskiptanefnd og það kom mér á óvart í gær, í ljósi alls þess klúðurs sem hefur verið í tengslum við þennan kolefnisskatt, að á fundi sem ég hélt að ekki ætti að taka langan tíma kom fram breytingartillaga þar sem rætt var um að viðhalda álögum á iðnaðinn til viðbótar við ETS-skattinn þannig að ég tel að það mál sé komið í algjöran ólestur á ný. Ég mundi vilja heyra hv. þingmann svara því og þá er þetta í þriðja skiptið sem ríkisstjórnin gengur gegn yfirlýsingu sem hún ritaði undir gagnvart aðilum vinnumarkaðarins árið 2009 eins og við báðir þekkjum nokkuð vel.

Kjarninn er nefnilega sá að ef menn haga störfum sínum á þann veg að aðilar í atvinnulífinu fá það á tilfinninguna að það sé mjög tilviljunarkennt hvernig menn standa að breytingum á lögum — og í raun og veru hefur það komið fram í umsögnum aðila um þetta frumvarp að samráðsleysið hefur verið nær algjört þegar kemur að mikilvægum ákvörðunum sem tengjast atvinnuuppbyggingu. Síðan eru menn mjög hissa á því að tekjur ríkissjóðs skuli ekki vera meiri en raun ber vitni og eru hissa á því að við séum að borga á þriðja tug milljarða í atvinnuleysisbætur.

Þetta gengur að sjálfsögðu ekki og þetta er kannski ein ástæða þess að hin norræna velferðarstjórn er á næsta ári að skerða kjör aldraðra og öryrkja þvert á gefin fyrirheit. Það væri ánægjulegt að kasta því fram í umræðuna hvort þetta sé ekki þvert gegn því sem þingmenn og ráðherrar þessa flokks hafa á undangengnum talað um.

Þessi ríkisstjórn er komin í andstöðu við sjálfa sig í málinu. Það er með ólíkindum að sjá aðförina sem aldraðir og öryrkjar verða fyrir vegna þess að kjör þeirra munu á næsta ári skerðast að raungildi hjá hinni svokölluðu norrænu ríkisstjórn. Ég veit ekki hvort (Forseti hringir.) hægt er að kalla þessa ríkisstjórn norræna velferðarstjórn mikið lengur.