140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[21:13]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er stoltur jafnaðarmaður. Ég tel að við eigum að leggja áherslu á það að efla atvinnulífið í landinu og auka möguleika fyrirtækjanna til að sækja fram og skapa verðmæti, en ég vil líka gæta að þeim sem minnst mega sín í samfélaginu.

Ég gerði ítarlega grein fyrir því í rúmlega hálftímaræðu þar sem ég rakti staðreyndir og fleiri staðreyndir hvernig við eigum að koma til móts við þá sem lökust hafa kjörin, í gegnum almannatryggingar, (Gripið fram í: … svarið?) örorkubætur og lífeyrisgreiðslur en ekki síður í gegnum tekjuskattsbreytingar hjá hinum almenna launamanni. Það sýna tölurnar svart á hvítu. Ég held ég hafi farið í gegnum það tvisvar ef ekki þrisvar sinnum í ræðu minni að stærstur hluti hinna almennu launamanna borgar lægra hlutfall af tekjum sínum í skatt en áður. (Gripið fram í: … lægri tekjur.) Það er hlutfall af tekjum, hv. þingmaður.