140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[21:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki tíma til að fara yfir allar rangfærslurnar sem voru í ræðu hv. þm. Magnúsar Orra Schrams. Tekjuskattskerfið hefur verið langa tíð og kannski alltaf á Íslandi þannig að þeir sem eru með lægri tekjur borga lægra hlutfall. Það er ekkert nýtt.

Ég spurði hann út í Gini-stuðulinn sem sýnir að ójöfnuður er að aukast. Ég spurði hv. þingmann að því. Af hverju svarar hann því ekki?

Ég spyr hvernig hann komist að þeirri niðurstöðu að við höfum niðurgreitt sparnað um 1,4 milljarða. Hann þarf að útskýra það. Hv. þingmaður er í efnahags- og viðskiptanefnd. Það veit enginn af þessu.

Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að hann væri fylgjandi skattlagningu lífeyrissjóða vegna þess að þeir hafi sýnt óábyrga lánastefnu út af jafnræði aðila. Nú liggur það alveg fyrir að það er bara verið að skattleggja suma, bara almennu lífeyrissjóðina. Hvaða jafnræði er það?

Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að þessi skilaboð komi fram hjá annaðhvort vinstri mönnum eða miðjumanninum, hv. þm. Magnúsi Orra Schram. (Forseti hringir.) Ég bið hann að svara spurningunum.