140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[21:17]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé mikilvægt að við höfum staðreyndir á hreinu. Er hv. þingmaður ekki sammála mér um það að kjör aldraðra og öryrkja munu skerðast á næsta ári samkvæmt þessu frumvarpi? Getum við ekki verið sammála um það og talað um staðreyndirnar eins og þær eru?

Síðan velti ég fyrir mér: Hvernig skilgreinir hv. þingmaður orðið velferð? Nú talar hann um að búið sé að leggja til stóraukna fjármuni til velferðarmála en hann minnist ekki á það að atvinnuleysi í landinu hefur margfaldast frá hruni og þá rúmu 20 milljarða sem fara til atvinnuleysisbóta. Er það raunveruleg velferð? Og þegar hv. þingmaður kemur hingað upp og talar um að atvinnuleysið sé hálfpartinn að minnka hér á landi, hefur hann þá engar áhyggjur af því að við horfum upp á sjö manns fara héðan á hverjum degi til annarra landa til að vinna? Þeir fara þá væntanlega af atvinnuleysisbótum. Er hv. þingmaður svona ánægður með það?