140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[21:19]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki fyrstu spurningu minni um kjör aldraðra og öryrkja, hvort það sé ekki örugglega rétt skilið hjá mér, samtökum aldraðra og öryrkja og Alþýðusambandi Íslands að samkvæmt þessu frumvarpi munu kjör aldraðra og öryrkja skerðast á næsta ári. Það eru breiðu bökin sem hin norræna velferðarstjórn ætlar sér að setja þessar byrðar á.

Hins vegar vil ég minna hv. þingmann á það að fjárfesting hér á landi, þrátt fyrir afrek ríkisstjórnarinnar á sviði efnahagsmála eins og hv. þingmaður gat um, er í sögulegu lágmarki.

Við höfum ríkisstjórn sem búin er að gera 142 breytingar á skattkerfinu. Við höfum ríkisstjórn sem er á móti erlendri fjárfestingu, til að mynda í ferðaþjónustu. Við höfum ríkisstjórn sem gumar sig af því að greiða 20 og eitthvað milljarða vegna þessa ástands og skilgreinir það sérstaklega sem velferð. Það er mjög hættuleg nálgun. Við þurfum að skapa störf hér. Að sjálfsögðu eigum við að aðstoða atvinnulaust fólk (Forseti hringir.) en það gerum við með því að skapa störf. (Forseti hringir.) Fjárfesting er í sögulegu lágmarki og það er engin norræn velferð í þeirri stefnu.