140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[21:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlýddi á ræðu hv. þingmanns og hún var með ólíkindum. Ég hef sjaldan heyrt aðra eins ræðu, nema kannski í fréttunum í kvöld þegar hæstv. forsætisráðherra sagði að það væri enginn brottflutningur af landinu, ekkert sem teljandi væri. Samt hafa sex þúsund Íslendingar flutt til útlanda umfram þá sem flytja til Íslands. Þetta er oft duglegasta fólkið og vel menntað og við erum að flytja út mannauð. (Gripið fram í: Jahá.) Er það kannski allt í lagi?

Svo talaði hv. þingmaður um lífeyrissjóðina, að þeir væru óábyrgir lánveitendur o.s.frv. Það hefur ekkert breyst við stjórnir þeirra þó að hæstv. ríkisstjórn hafi staðið svo lengi. Hv. þingmaður greiddi 17. september atkvæði gegn því að sjóðfélagar kysu stjórnir sjóðanna og sjóðfélagar ættu sjóðina og þeir hefðu einhver áhrif á stjórnir þeirra. Það er ekkert samræmi í málflutningi hv. þingmanns.