140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[21:23]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ræðu minni hvað snertir lífeyrissjóðina var ég bara að draga fram röksemdir að baki þeirri nálgun sem ég hef í því máli, að lífeyrissjóðirnir eigi að koma með okkur í það verkefni að styðja við bakið á skuldugum heimilum í landinu. Þeir tóku þátt í þeirri lánabólu sem var í gangi á sínum tíma með því að veita lán í gegnum þriðja aðila, þ.e. lánsveðshópinn. Þeir geta ekki horft fram hjá þeirri staðreynd.

Við erum að reyna að hjálpa skuldugum heimilum, við höfum reynt að gera það í gegnum efnahagsreikninginn og við þurfum ekki síður að gera það í gegnum rekstrarreikninginn. Þar koma sérstöku vaxtabæturnar og vaxtabótaaukinn inn og ég óska eftir því að lífeyrissjóðirnir komi með í það verkefni. Það var það sem ég var að draga fram áðan.

Hvað snertir brottflutning fólks er það að sjálfsögðu ekki neitt gleðiefni að fólk flytji af landi brott og svo gjarnan mundi ég vilja að við gætum skapað störf og sómasamlegan aðbúnað fyrir þetta fólk. (Forseti hringir.) Um það erum við hv. þingmenn hjartanlega sammála.