140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[21:29]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður lokar ekki algerlega á þá kerfisbreytingu sem meiri hluti velferðarnefndar lagði til vegna þess að það er sú skipan mála sem tíðkast í nálægum löndum.

Það stangast alltaf á tvenns konar sjónarmið þegar um er að ræða verðlagningu, sölu, markaðssetningu og notkun og neyslu og auglýsingar á tóbaki og áfengi vegna þess að þetta eru ekkert venjulegar verslunarvörur. Annars vegar er um að ræða lýðheilsusjónarmið og heilbrigðisstefnu stjórnvalda, sem við í hv. velferðarnefnd höfum viljað standa vörð um, og hins vegar eru það markaðsöflin sem vilja koma vöru sinni á framfæri og afneita skaðsemi tóbaksins og því að breytingar til að mynda eða merkingar á pökkum hafi áhrif á sölu þeirra.

Þessar tillögur eru ekki settar fram í gríni og þær vekja líka viðbrögð úti í hinum stóra heimi. Þegar hafa velferðarnefnd borist nokkuð margar umsagnir, m.a. frá tóbaksframleiðendum, innflytjendum þeirra (Forseti hringir.) og bandarískum hagsmunasamtökum sem vilja selja sem mest af tóbaki. Þetta liggur allt fyrir, hv. þingmaður.