140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[22:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hún er svolítið hulin sú velferð sem vinstri flokkarnir, rétt nefndir, státa sig af. Við skulum halda því til haga að þetta eru vinstri flokkar og þegar ríkisstjórnin var mynduð var talað um hreina norræna velferðar- og vinstri stjórn. Langt og mikið nafn.

Auðvitað eru miklar líkur á því að þegar stjórnarflokkarnir núverandi, vinstri flokkarnir, ákveða að leggja velferðarmálin fram á þann veg að hafa atvinnuleysisupphæðirnar inni til að sýna aukningu, verði litið á það sem niðurskurð til velferðarmála þegar aðrir, hverjir sem taka við stjórnartaumunum, blása til sóknar í atvinnumálum þannig að dregur úr atvinnuleysi og stabbinn minnkar.

Ég verð reyndar að segja að ég er hissa á því að þessar tölur skuli ekki vera lagðar fram aðskildar. Þetta kemur vitanlega einhvers staðar fram, hvað fer raunverulega í velferðarkerfið sem slíkt og hvað fer í atvinnuleysishlutann sem mun taka breytingum, hækka eða lækka.

Þegar að því kemur að atvinnuleysið minnkar, með nýrri ríkisstjórn og nýrri framtíðarsýn, verður líka að vera hægt að segja: Þetta er hinn raunverulegi velferðarpakki og honum ætlum við að halda svona, við ætlum að hafa hann þetta stóran, og þá er ég að meina fyrir utan atvinnuleysishlutann.

Ég vil halda því til haga að á meðan atvinnuleysi er og ekki er brugðist við því á annan hátt en þann að greiða bætur er mikilvægt (Forseti hringir.) að aurar séu settir í það.