140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[22:16]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var gott og greindarlegt svar eins og við var að búast frá hv. þingmanni, sem er athugull og glöggur maður.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann spurningar sem leitaði á hugann eftir ræðu hv. þm. Magnúsar Orra Schrams fyrr í kvöld. Þar var hv. þingmaður að útskýra fyrir þingheimi að skattleysi á 2% af séreignarsparnaði sem hefði verið undanfarin ár þar sem byggður hefur verið upp séreignarsparnaður, hefði verið nokkurs konar niðurgreiðsla á sparnaði og hún næmi í kringum 1,4 milljörðum á ári. Þá eru rökin þau að þegar þetta er afnumið aukist skatttekjur í ríkissjóði um 1,4 milljarða.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, og það er kannski nátengt fyrri spurningunni um meðferð talna, hvort geti verið að það að skattleggja ekki öll lífsins gæði sé þá einhvers konar niðurgreiðsla eða gjöf frá ríkinu til almennings. Eigum við að líta svo á að það sé gjöf frá hinu almáttuga ríki til almennings að skattleggja ekki hluta launanna? Að stjórnmálamenn leyfi, af miskunn sinni, almenningi að halda eftir einhverjum smáhluta launanna?