140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[22:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu. Hann fór yfir breitt svið. Við höfum náttúrlega tekið þátt í þessari umræðu í kvöld og erum ekki að koma að þessu í fyrsta skipti. En ég ætlaði að kanna það hvort hv. þingmaður hefði einhverja skoðun, ég tala nú ekki um þekkingu, á hinni miklu sjálfsafneitun sem er í gangi hjá ríkisstjórninni.

Ég fór inn á samskiptavef áðan og sá viðbrögð fólks við yfirlýsingum hæstv. forsætisráðherra, þar sem hún segir fullum fetum í fréttum að fólksflutningar séu ekkert meiri þetta árið en í venjulegu árferði. Það eru reyndar komnar leiðréttingar víðs vegar að, almenningur er að upplýsa hæstv. forsætisráðherra á samskiptavefnum og Samtök atvinnulífsins voru að benda á að þetta er næstmesta fólksflutningaárið í sögu íslensku þjóðarinnar. Eftir sem áður bliknar hæstv. forsætisráðherra ekki þegar hún segir að þetta sé bara eins og í venjulegu árferði.

Við hlustuðum á hv. þingmenn tala áðan um jöfnuð. Nú er það vitað að Gini-stuðullinn, sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar vísuðu í hér lon og don, sýnir að ójöfnuður hefur aukist á Íslandi í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Talandi um ESB þá held ég að hvergi á byggðu bóli tali menn um ESB eins og þeir sem í fullkominni blindni halda því hér fram að það sé lausn allra mála. Það er eins og þeir taki ekki eftir þeim gríðarlega vanda sem þar er.

Ég spyr í fullri einlægni: Er hægt að útskýra þessa yfirgengilegu sjálfsafneitun stjórnarliðsins?