140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[22:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hugsa að ég hafi ekki þekkingu til að meta hugarástandið á ríkisstjórnarheimilinu en ég hef hins vegar ákveðna reynslu úr hinum ytri heimi, ef þannig má orða það, sem ég held að hæstv. ríkisstjórn ætti að fara oftar út í. Þar er skýringin klárlega sú að um mikla sjálfsafneitun sé að ræða, þ.e. að köllin sem berast utan úr samfélaginu ná ekki upp í fílabeinsturninn. Hann er orðinn svo hár og það er svo langt niður að hrópin heyrast ekki upp.

Það eru vitanlega þessi atriði sem hv. þingmaður nefndi og margt fleira sem verið er að hrópa upp í turninn. Vitanlega er verið að benda á að á hverjum degi fari sex til sjö Íslendingar af landi brott, þeir flýja í burt. Það er rétt sem hv. þingmaður nefndi að á það hefur verið bent að þetta séu næstmestu fólksflutningar sem sögur fara af.

Vitanlega er það líka sorglegt að ríkisstjórnin skuli ekki horfa á þær staðreyndir sem við fáum utan úr heimi varðandi Evrópusambandið. Og það er líka sorglegt að menn loki enn eyrunum fyrir stöðu heimilanna, að ekki sé brugðist við því. Það er líka sorglegt að menn skuli ekki heyra köllin frá fjárfestum og atvinnulífinu um hvað beri að gera til að koma hjólunum af stað.

Það er enn merkilegra að Alþýðusamband Íslands, sem hefur nú haft beina línu upp í turninn, virðist vera búið að tapa sambandinu og er farið að hrópa með almenningi á ríkisstjórnina. Nú er bara að vona að það kröftuga batterí beiti sér áfram af hörku til að ná eyrum stjórnvalda.