140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[22:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg rétt lýsing að um fílabeinsturn sé að ræða. Hv. þingmaður nefndi þrennt, stöðu heimilanna, hjól atvinnulífsins, stöðuna í Evrópusambandinu, og gat þess að ASÍ væri búið að missa þolinmæðina.

Ég verð að viðurkenna að ég ætla ekkert að halda niðri í mér andanum, ég held að gagnrýnin hjá ASÍ muni lognast út af mjög fljótlega. Því miður skiptir engu máli hvað hæstv. ríkisstjórn svíkur marga samninga sem snúa að verkalýðsfélögunum og launþegahreyfingunni, þeir fylgja því ekki eftir. Þá er ég ekki að hugsa um stjórnarandstöðuna heldur það fólk sem þeir starfa í umboði fyrir.

Ég hef spurt hv. stjórnarþingmenn sem komið hafa hingað upp út í þá prinsippafstöðu að skattleggja lífeyrissjóðina því að það er það sem menn eru að fara út í núna og það er miklu stærra mál en menn átta sig á.

Ég verð að segja eins og er að þau vinnubrögð sem viðhöfð eru, að við skulum vera að ræða þetta kl. hálfellefu og þurfum að vera hér eitthvað fram eftir til að afgreiða þetta, eru ekki til fyrirmyndar.

Við höfum ekkert farið í þá miklu mismunun sem felst í því að skattleggja lífeyrissjóðina sem er náttúrlega bara skattlagning á það fólk sem hefur greitt þangað inn og þvert á öll fyrirheit sem gefin hafa verið. Við höfum ekki rætt nógu vel um afleiðingar þess bæði til lengri og skemmri tíma, misræmið á milli þeirra sem greiða í almennu sjóðina og hinna sem greiða í opinberu sjóðina. Þetta virðist allt vera handahófskennt.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni, hér er fólk við stjórnvölinn sem ekki er í tengslum við raunveruleikann (Forseti hringir.) eða almenning og það er afskaplega alvarlegt fyrir íslenska þjóð.