140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[23:11]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu. Mér þótti mjög áhugavert að hlusta á andsvör við ræðum hv. þingmanns. Við höfum náttúrlega rætt í kvöld um sjálfsafneitunina hjá ríkisstjórninni sem er nú að verða einhver sérstök útflutningsvara. Það er svolítið áhugavert þegar hv. þingmenn, til dæmis sá hv. þingmaður sem talaði áðan, tala um ESB sem einhvers konar Shangri-La, það er Shangri-La fyrir þeim, að ef við komust þar inn muni allt lagast. En nú er hv. þingmaður farinn að segja að ástandið sé svo slæmt í ESB að það sé ívið skárra hjá okkur. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór yfir rætur Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, sem er Alþýðubandalagið. Þessir flokkar eru nokkurn veginn Alþýðubandalagið sem breiddi sig út í tvo flokka og tók yfir þá báða og það er áhugavert að Samfylkingin samanstendur fyrst og fremst af alþýðubandalagsfólki. Ég hef verið að lesa bókina Íslenskir kommúnistar og sömuleiðis bók Þórs Whiteheads, sem er þögguð niður þar sem hann ræðir sögu kommúnistahreyfingarinnar. Ég er að velta því fyrir mér hvort þessi ESB-sjálfsafneitun sé bara menning Alþýðubandalagsins sem var gagnrýnd, svo sannarlega af góðri ástæðu, fyrir fullkomna sjálfsafneitun varðandi Sovétríkin og austurblokkina. Telur hv. þingmaður að það geti verið að þessi ESB-afneitun og ýmislegt fleira eigi sér rætur í þeirri (Forseti hringir.) menningu Alþýðubandalagsins og hefð?