140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[23:13]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson spyr mjög áhugaverðra spurninga. Við eigum það sameiginlegt að vinna ekki bara við stjórnmál, heldur að vera líka áhugamenn um stjórnmál. Það er mjög áhugavert að velta fyrir sér sögu stjórnmála og reyna að sjá einhverja samfellu í þeim. Ég hafði satt best að segja ekki leitt hugann að því að þetta væri kannski ekkert nýtt, að það þyrfti ekki að koma á óvart að afneitun væri eitthvað sem alþýðubandalagsmenn sem nú stjórna landinu hafi fyrir löngu vanið sig á, og því sé það ekki eins stórt stökk eins og ég gerði ráð fyrir að halda þeirri afneitun áfram og bæta á hana.

Af því hv. þingmaður nefnir sögu íslenskra sósíalista og kommúnista er svolítið áhugavert að hugsa um hvernig þróunin var í Austur-Þýskalandi á sínum tíma þegar stofnaður var nýr flokkur undir handleiðslu Sovétríkjanna. Sovétríkin sáu til þess að gamli kommúnista- eða sósíalistaflokkurinn í austurhluta Þýskalands og gamli krataflokkurinn, eða Jafnaðarmannaflokkurinn, voru sameinaðir í einn flokk, Einingarflokkinn, skulum við kalla hann á íslensku. (GÞÞ: Samfylkingin.) Samfylkingin, er kallað hér fram í, við getum líka gefið flokknum það nafn. Þar gerðist það að smátt og smátt náðu hörðu vinstri mennirnir yfirtökunum. En það gerðist líka svolítið merkilegt, hörðu vinstri mennirnir, þýskir sósíalistar með þjóðlegar áherslur sem náð höfðu yfirtökunum, viku, þeir urðu undir gagnvart alþjóðasósíalistunum, sem svo voru kallaðir. Þar er átt við þá sósíalista (Forseti hringir.) sem hafa vildu tengslin við Sovétríkin sem mest og taka við (Forseti hringir.) sem mestri leiðsögn þaðan.