140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[23:18]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að þetta sé alveg rétt greining hjá hv. þingmanni. (Gripið fram í.) Það er nefnilega grundvallarmunur á því hvernig margir samfylkingarmenn líta á Evrópusambandið og svo þeir sem eru opnir fyrir Evrópusambandinu og Evrópusamvinnu í öðrum flokkum. Við þekkjum það úr flokkum okkar að í þeim er margt fólk reiðubúið að skoða inngöngu í ESB og lítur á það sem einn af þeim valkostum sem við eigum að hugleiða og meta kosti þess og galla. En í Samfylkingunni hefur það núorðið öll einkenni trúarbragða. Það er orðið mjög áberandi að það er ekki bara líkt trúarbrögðum heldur hefur það í rauninni öll einkenni sértrúarsafnaðar hvað Evrópusambandið varðar. Eitt af því sem er þar sérstaklega áberandi er afneitunin, að það skiptir engu máli hvað kemur í ljós, til dæmis varðandi stöðuna núna, menn herðast bara í afneituninni og trúnni og útskýra sig frá því með sífellt frumlegri hætti eða eins og hæstv. utanríkisráðherra gerir, fara að sjá einhvern allt annan veruleika en við hin og upplýsa menn um það. Hæstv. utanríkisráðherra kemst reyndar furðuvel upp með það miðað við hvernig ástandið er. Það er líklega vegna þess að umræðan um þessi mál á Íslandi er ekki í samræmi við tilefnið. Það nægir að skreppa til útlanda og lesa þar blöðin eða horfa á sjónvarp, eða þess vegna að fara á netið hér á Íslandi (Gripið fram í.) til þess að átta sig á því að í Evrópu og jafnvel í Bandaríkjunum snýst allt um þá sögulegu viðburði sem eiga sér nú stað í Evrópusambandinu og þær gríðarlegu hremmingar sem kanslari Þýskalands kallar mestu krísu Evrópu frá seinni heimsstyrjöldinni, til þess að átta sig á því hversu lítil og takmörkuð umræðan (Forseti hringir.) er hér. Og vegna þess hversu takmörkuð hún er komast menn upp með ýmislegt (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) sem þeir ættu kannski ekki að komast upp með.