140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[23:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem er tekjuöflunarhluti ríkisfjármálanna. Hér hefur nokkuð verið rætt um firringu og afneitun og nokkur dæmi nefnd um það. En það sem mér finnst verst er að ríkisstjórn vinstri manna, velferðarstjórnin, ákvað — kannski vegna þess að þetta er vinstri stjórn og kannski vegna þess að hún hefur ekki trú á því að það sé samhengi á milli skattstofna og skatta — að skatta Íslendinga út úr kreppunni, skatta og skera. Þetta er skatta- og skurðarstjórnin mikla.

Þegar þingmenn hæstv. ríkisstjórnar koma í ræðustól, og ég nefni sérstaklega hv. þm. Magnús Orra Schram, benda þeir á að þetta virðist allt vera býsna gott. Verðbólgan er lægri, vextir eru lægri og staða ríkissjóðs hefur batnað mjög mikið. Gert er ráð fyrir 20 milljarða kr. halla en það vantar reyndar sennilega 20–50 milljarða kr. til viðbótar sem felast í skuldbindingum sem ekki eru sýndar. En við skulum gleyma því í bili.

Svo kom hæstv. forsætisráðherra í kvöld í sjónvarpið og sagði að brottflutningur af landi væri ekkert meiri en í venjulegu árferði, frú forseti. Það er ákveðin firring eða afneitun eða að menn eru hreinlega ekki í tengslum við veruleikann. Strax í kjölfar fréttarinnar var nú samt sagt að fullt af fólki væri að flytja af landi brott þó að hæstv. forsætisráðherra landsins segði þetta.

Nú er búið að setja fjárlög og fjárlög eru lög sem öllum ber að fara eftir, sérstaklega þingmönnum og Alþingi sjálfu. Fjáraukalög verða ekki sett fyrr en á næsta ári, ég get ekki séð að hægt sé að setja fjáraukalög núna fyrir áramót vegna þess að eitthvað breytist í meðförum þingsins í tekjuhliðinni. Þess vegna erum við í þeirri furðulegu stöðu, frú forseti, að við erum eins og í spennitreyju. Við getum hreyft okkur innan fjárlaganna. Það má ekki hnika við niðurstöðu fjárlaga, það má ekki hnika við einstökum tekjustofnum en hægt er að breyta innan þessara tekjustofna eins og gert er með skattana á bankana. Þar eru menn að færa til innan kerfisins með því að lækka skatta á laun fólksins í bönkunum, ekki falla alveg frá þeirri stefnu af því að menn vara við því að það kynni að valda vandræðum í litlum útibúum úti á landi, og leggja í staðinn skatt á hagnað bankanna. Við hv. þingmenn erum því í þeirri stöðu, merkilegt nokk miðað við þessa framkvæmd, að við getum eiginlega bara hreyft okkur innan fjárlaganna sem búið er að setja.

Fallið hefur verið frá nokkrum þáttum eins og kolefnisskattinum sem var arfavitlaus og hefði verið mjög skaðlegur. Gert var ráð fyrir því í fjárlögunum þannig að það er í sjálfu sér í lagi. Síðan er verið að lækka aðra skatta og breyta þannig að ýmislegt gott hefur orðið til í meðförum þingsins, þetta er ekki alslæmt.

Svo kemur að túlkuninni og það er mjög gott að hv. þm. Magnús Orri Schram er kominn í salinn því að hann talaði um að skattar hefðu lækkað o.s.frv. Nú skulum við hugsa okkur Jón Jónsson sem er lagermaður. Hann hefur haft ágætisyfirvinnu undanfarin ár en svo fellur yfirvinnan niður ásamt yfirborguninni. Þessi maður var kannski með 400 þús. kr. í laun, og greiddi ákveðið hlutfall af tekjum í skatt, en er kominn niður í 250 þús. kr. Hann borgar núna miklu minna hlutfall af tekjum í skatt vegna þess að skattkerfið okkar er prógressíft, menn borga hlutfallslega miklu hærri skatta þegar tekjurnar tvöfaldast. Reyndar er það svo að þeir sem eru undir skattleysismörkunum borga ekki neitt, þannig að eftir því sem fólkið nálgast skattleysismörkin minnkar skattbyrðin. Og það getur verið að draumsýnin sé einmitt sú á bak við þetta allt saman, að hafa alla við frítekjumarkið, alla með sömu tekjur við skattleysismörk. Það getur verið að það sé draumurinn. Við erum því miður að nálgast hann nokkuð hratt með öllum þessum sköttum sem verið er að setja á fólk. Sá hópur fólks sem er með millitekjur í þjóðfélaginu kvartar sáran, að minnsta kosti við mig. Það getur vel verið að það séu einhverjir kverúlantar sem hafi samband við mig en ekki við hv. stjórnarþingmenn. En millitekjufólkið sem hefur menntun og þarf að borga námslán og annað slíkt kvartar mikið við mig. Kannski ekki nógu margir, kannski eru þetta bara undantekningar, en það segir að það fái ekkert fyrir menntunina og nái varla endum saman þrátt fyrir að hafa ágætismenntun og sé í ágætri stöðu.

Þetta er um fjárlögin og að þau séu samþykkt fyrst. Það hefur svo sem gerst áður en er ekki til fyrirmyndar. Og svo er það þetta sem ég vil kalla rugl í þingsköpunum sem verður að laga og mér skilst að menn séu að laga. Fjárlaganefnd á að veita efnahags- og viðskiptanefnd umsögn um frumvörp en hefur ekki gert það, kannski vegna þess að hún hélt að þegar hún væri búin með fjárlögin væri starfinu lokið, ég veit ekki hvaða ástæða er á bak við þetta en ég ætla ekki að fara nánar út í það.

Hér hefur nokkrum sinnum verið sagt að landið sé tekið að rísa og ég held að þá sé vitnað í greinaskrif hæstv. fjármálaráðherra fyrir nokkrum árum þar sem hann skrifaði fjálglega um að landið væri tekið að rísa. Nú ætti hann sem jarðfræðingur að vita að þegar land rís fylgir því yfirleitt eldgos eða jarðskjálftar, það er því ekki endilega jákvætt að landið sé að rísa og ekki gott að jarðfræðingur taki sér þau orð í munn.

Ég er yfirleitt hlynntur niðurskurði í ríkisútgjöldum. Ég held að það hafi verið stærstu mistök Sjálfstæðisflokksins þegar hann var einn við völd hérna í 18 ár sem kunnugt er, og orsakaði allt sem miður fór að mati sumra, að hafa stuðlað að því að velferðin jókst á alla mælikvarða. Fyrirspurnir okkar hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins hafa sýnt að framlög til málefna fatlaðra stórjukust á þeim 18 árum sem Sjálfstæðisflokkurinn var við völd og sömuleiðis atvinnuleysisbætur og ég veit ekki hvað. Það er sama á hvaða mælikvarða við mælum þetta, allt jókst þetta. Kannski var farið offari og Sjálfstæðisflokkurinn var of mikill velferðarflokkur á þeim árum sem hann var einn við stjórn. Þess vegna er ég hlynntur því að skera niður velferðarkerfið sem hefur vaxið svona gífurlega mikið og það voru okkar mestu mistök að fara svona að ráði okkar þegar við réðum einir.

Það er þó ekki alltaf gott að skera niður og alveg sérstaklega ekki þegar atvinnuleysi ríkir. Það hefur sýnt sig í þessum niðurskurði hæstv. velferðarstjórnar að í yfirgnæfandi meiri hluta eru það konur sem missa vinnuna, ekki hátekjukonur heldur lágtekjukonur. Þær fara af launaskrá hjá ríkinu á atvinnuleysisbætur hjá Atvinnuleysistryggingasjóði, sem er líka ríkið, þannig að það er ekki gott. Síðan segja menn að velferðin sé að vaxa vegna þess að útgjöld til atvinnuleysisbóta eru að vaxa. Mér finnst það algjör þversögn, það er fáránlegt. Þetta hefur verið nefnt hér áður og ég sé að menn geispa yfir því. En ég ætla að biðja menn þegar þeir segja að velferðin sé að vaxa að undanskilja atvinnuleysisbætur því að ég tel atvinnuleysi ekki til velferðar, ég verð bara að segja eins og er, mér finnst það slæmt.

Ég held að flestir séu orðnir sammála um hver vandinn sé sem við glímum við í dag þó að menn sjái ekki alltaf hvernig hægt sé að laga hann. Vandinn er skortur á atvinnu. Það þarf að skapa og skapa aftur atvinnu eða skapa skilyrði til að atvinna myndist. Þar stendur hnífurinn í kúnni vegna þess að ríkisstjórnin hefur markvisst, og gerir það enn, ráðist á sparnað og ráðdeild sem er forsenda þess að hægt sé að veita lán og kaupa hlutabréf, sem er forsenda þess að farið sé í fjárfestingar sem er aftur forsenda þess að atvinna skapist. Fjárfestingar hafa aldrei verið minni. Menn geta horft á það eins lengi og þeir vilja en ef þeir gera ekkert í því halda þær áfram að vera í lágmarki. Með þessu frumvarpi er enn verið að höggva í þann sama knérunn, ráðast á sparnað og ráðdeild.

Sem dæmi um óvissu og tilviljanakenndar breytingar hefur verið nefnt að 142 breytingar hafi verið gerðar á skattalögum. Mér sýndist við fljóta talningu að við bættust um 30–40 breytingar til viðbótar og þá erum við komin upp í 170–180 breytingar á skattalögum frá því að þessi velferðarstjórn tók við. Þessar breytingar hrella fjárfesta, t.d. menn sem keyptu einu sinni spariskírteini eða húsbréf af ríkissjóði fyrir löngu síðan og lánuðu honum fé, frestuðu neyslu, keyptu ekki bíl eða fóru ekki í ferðalög, lenda í því núna að dúndrað er á þá 20% skatti frá því að fjármagnstekjuskatturinn var tekinn upp 1997. Þetta er afturvirk skattlagning. Ég þekki dæmi um menn sem hafa lent í þessum ósköpum og eiga ekki einu sinni nóg til að lifa af í kjölfarið og þurfa svo að standa í kostnaði við að verja sig, sem þeir fá ekki endurgreiddan. Endurskoðendur og lögfræðingar eru ekki sérstaklega ódýrir í dag.

Svona tilviljanakennd skattlagning og framkvæmd þar sem enginn veit hvað stendur fyrir dyrum hrellir fjárfesta og hrellir fólk almennt. Menn verða hræddir og gera ekki neitt og það leiðir til kyrrstöðu og stöðnunar. Það er einmitt lýsingin á þessari ríkisstjórn, þetta er ríkisstjórn kyrrstöðu og stöðnunar og það er hættulegt.

Svo hafa menn flækt skattkerfið svo mikið að með ólíkindum er. Nú er komið þriggja þrepa skattkerfi og ekki lengur hægt að reikna út skatta á einfaldan máta heldur þarf helst reiknivél til þess og tölvur. Það er búið að flækja allt í kringum kolefnisskattinn og sturtuskattinn, það er búið að flækja þetta alveg með ólíkindum, frú forseti, þannig að nánast enginn skilur lengur hvernig skattkerfið virkar.

Við búum við skelfilega stöðu sem er atvinnuleysi. Hér hafa tvö þúsund manns verið atvinnulausir síðan fyrir hrun og það er skömm okkar allra, allra hv. þingmanna, að hafa ekki leyst vandann með langtímaatvinnuleysið. Samkvæmt fjárlögum er gert ráð fyrir að þessi hópur fái atvinnuleysisbætur í níu mánuði á næsta ári. Og hvað gerist svo? Þá hverfur hann af atvinnuleysisbótaskrá, þetta fólk hættir að vera atvinnulaust, frú forseti. En það fær ekki vinnu. Nei, það fer til sveitarfélaganna og allt í einu vex velferðin þar og atvinnuleysið minnkar hér á landi. Það getur vel verið að einhverjum þyki þetta gott en mér þykir það ekki gott. Það þarf að skapa atvinnu handa þessu fólki.

Svo hefur gerst líka að fjöldi fólks hefur farið í háskóla. Það er gott, það er fínt að fólk mennti sig. En hvað tekur við þegar fólkið hefur lokið námi? Um þessar mundir eru þeir sem fóru í þriggja eða fjögurra ára nám að útskrifast úr háskólunum, koma svo með menntun í farteskinu, fullir af dugnaði og krafti inn á vinnumarkaðinn, en þar er ekkert að gera, frú forseti. Hvert skyldi þetta fólk þá fara? Væntanlega til Noregs. Þá er þessi menntun ónýt fyrir landið. Hún er góð fyrir viðkomandi einstaklinga, góð fyrir Noreg en þetta er ekki gott fyrir Ísland. Ég skil ekki að menn skuli ekki sjá þetta.

Svo eru það hinir brottfluttu, þeir sem hafa farið til Noregs. Þrátt fyrir að hæstv. forsætisráðherra segi að þetta sé ekki neitt neitt er fjöldinn sex þúsund Íslendingar. Ég er ekki að tala um Pólverjana sem fóru heim heldur Íslendinga. Sex þúsund Íslendingar hafa flutt úr landi umfram þá sem flutt hafa til landsins. Við erum því að sjá á bak fjölda af fjölskyldum sem eru að fara til útlanda. Vonandi koma þær aftur en ég óttast að þær geri það ekki.

Svo tala menn fjálglega um að þetta sé allt saman ljómandi gott og þetta sé hin fínasta velferðarstjórn eða eins og hv. þm. Magnús Orri Schram sagði áðan, þetta er allt í sómanum.

Svo eru það þeir sem eru hálffluttir. Ég pantaði tíma hjá lækni um daginn og þá var mér sagt að hann væri í Svíþjóð, hann ynni alltaf eina viku í mánuði í Svíþjóð. Bíðum nú við. Þessa viku sem hann er úti er hann ekki atvinnulaus á Íslandi en hann er heldur ekki í vinnu á Íslandi. Þetta atvinnuleysi er dulið. Við erum með margar tegundir af duldu atvinnuleysi. Og að þessu öllu saman stendur hin norræna velferðarstjórn. Hún hefur ekki hugsað um atvinnuleysingja, hún hefur ekki skapað atvinnu fyrir fólkið og vill sýnilega ekki gera það af því að hún heldur áfram að ráðast á fjármagnið. Hún heldur áfram að ráðast á atvinnusköpun og ekki bólar mikið á virkjunum eða slíku hjá þessari ríkisstjórn eða að eitthvað gerist.

Hún hefur ekki hugsað um leigjendur svo að ég komi rétt inn á það. Þó að við séum að tala hér um tekjuhliðina verð ég að koma inn á hina hliðina sem eru leigjendur og öryrkjar. Öryrkjar kvarta undan því að bætur séu ekki hækkaðar. Hins vegar hafa menn lækkað skuldir um tugi milljarða og virðast vera nógir peningar til þess, en leigjendur fá sáralítið sem ekki neitt. Svo hefur komið í ljós að Ísland er nú orðið ofarlega á blaði yfir lönd sem búa við mikla fjárfestingaráhættu. Við upplifum einnig að jafnrétti kynjanna er meira að segja að minnka, staðan þar hefur versnað. Jafnrétti kynjanna hefur lengi verið áhugamál mitt og mér þykir mjög sárt að verða vitni að því að það sé að minnka. Og nýjustu tölur sýna að spillingin vex, Ísland er orðið spilltasta land á Norðurlöndum. Það er kannski vegna þess hvað menn hafa hækkað skattana mikið og oft.

Allt þetta var gert vegna þess að hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarflokkar ákváðu að skattleggja Ísland út úr kreppunni í staðinn fyrir að láta kökuna stækka og auka þannig tekjur ríkissjóðs og minnka halla ríkissjóðs, í staðinn fyrir að stækka kökuna og hvetja almenning og borgarana til dáða með því að lækka skatta og segja: Þú heldur meiri hluta af tekjum þínum eftir.

Ég reiknaði það út að gamni mínu um daginn hvað varð um 50 þúsundkallinn sem menn fengu við kjarasamninga í sumar. Launagreiðandinn varð að borga tæplega 60 þús. kr., 59 þúsund og eitthvað meira vegna launatengdra gjalda og svoleiðis, iðgjalds í lífeyrissjóð, tryggingagjalds, sjúkratryggingagjalds og ég veit ekki hvað og hvað sem bættist ofan á. Hann borgar sem sagt tæplega 60 þús. kr. en launþeginn hélt ekki nema 39%–45% eftir af 50 þúsundkallinum sem hann fékk, vegna þess að hann borgaði í lífeyrissjóð, borgaði félagsgjald o.s.frv. og borgaði svo stighækkandi skatta.

Við erum því komin í þá stöðu að launþeginn heldur aðeins eftir rétt rúmlega þriðjungi af tekjum sínum eftir skatt. Eftir því sem tekjurnar hækka þeim mun hærri verður álagningin þannig að verið er að gefa borgaranum þetta merki: Ef þú ætlar að búa á Íslandi, vinurinn, skaltu hafa þig hægan og ekki hafa of háar tekjur. Reyndu að halda þér í skefjum og vera ekki með of háar tekjur. Ekki mennta þig, ekki sýna dugnað og snilli, reyndu að halda þig á mottunni og vera bara með lágar tekjur. Þá skulum við skattleggja þig lítið. Þetta er merkið sem við skattgreiðendur fáum.

Hér er líka gerð enn ein atlaga að sparnaði og það hefur aftur og aftur verið nefnt í umræðunni, lækkunin á því framlagi sem menn geta sparað í séreignarsparnað úr 4% í 2%. Sú lækkun þýðir náttúrlega að fólk hættir að spara. Það er óskynsamlegt og eiginlega bara vitlaust að borga tvisvar sinnum skatt af peningunum því að það sem menn borga umfram 2% eftir breytinguna er skattlagt tvisvar, fyrst þegar menn vinna fyrir tekjunum og leggja þær fyrir og síðan aftur þegar þær eru teknar út úr séreignarsjóðunum. Þarna er því verið að ráðast á sparnað og það gefur ríkissjóði einhverjar tekjur.

Bent var á að fjöldi manns mundi ekki ugga að sér og gera breytingar á þeim samningum sem þeir höfðu gert. Allt í einu eru forsendur þeirra einkasamninga sem menn höfðu gert við viðkomandi fyrirtæki, brostnar. Þá ákvað nefndin að grípa inn í, og ég verð að vissu leyti að samþykkja það en ég er líka dálítið uggandi yfir því að þær breytingartillögur sem meiri hluti hv. efnahags- og viðskiptanefndar gerir felast í því að grípa inn í gerða samninga einstaklinga, á milli tveggja einkaaðila. Mér finnst það mjög varasamt. Með þessari lagabreytingu eru menn að breyta forsendum samninganna, og þá er kannski eðlilegt að grípa inn í samningana sjálfa en mér finnst það ekki góð regla og ekki til eftirbreytni. Fyrir utan það að þau fyrirtæki sem starfa á þessu sviði hafa stundað markaðsstarf til að fá fólk til að spara og nú er það starf allt í einu fyrir bí og spurning hvort ríkið sé þá skaðabótaskylt gagnvart þessum fyrirtækjum, ég þekki það ekki. En þarna er verið að grípa inn í samninga sem þessi fyrirtæki hafa gert og þau tapa á því.

Ég nefndi áðan skattþreparuglið, þ.e. þriggja þrepa skattinn. Í sjálfu sér munar ekkert voðalega mikið um þetta, frú forseti. Það er hægt að finna tveggja þrepa skatt, þ.e. skattleysismörk og skatta síðan það sem umfram, með tiltölulega góðri nálgun þannig að ekki munar neinum ósköpum fyrir alla skattgreiðendur. En vinstri menn vildu endilega flækja skattkerfið og setja á þriggja þrepa skatt sem gerir að verkum að almennt geta menn ekki reiknað út skattinn með fljótum hætti eins og hægt var með tveggja þrepa skattinn.

Svo er verið að framlengja auðlegðarskattinn og hvaða merki sendir það út í þjóðfélagið? Hann er bæði framlengdur og hækkaður. Hvað er verið að segja við fólk með því? Já, við setjum á skatt til bráðabirgða en það verður ekki til bráðabirgða. Það er ekkert að marka sem við segjum. Við framlengjum hann bara aftur og aftur. Mín spá er sú að skatturinn verði framlengdur aftur nema náttúrlega að ríkisstjórnin fari frá sem vonandi verður áður en þetta tímabil endar. Bæði er verið að hækka skattinn og framlengja og reyndar er einnig verið að breyta reglunum um seinna uppgjörið. Þegar þetta var samþykkt í fyrra benti ég á að það væri rugl að hafa mismunandi tímasetningu, og í breytingunum núna er tekið mið af því. En þetta er mjög flókið mál vegna þess að þegar einstaklingurinn telur fram liggur ekki fyrir framtal viðkomandi fyrirtækis sem hann á hlutabréf í, þannig að fram þarf að fara tvöfalt framtal og tvöföld skoðun.

Þessi skattur er náttúrlega árás á sparnað og ráðdeild eins og ég hef nefnt áður. Segjum að menn eigi innstæðu í banka, einhverjir eru til sem eiga það. 80% af þeim innstæðum eru óverðtryggðar. Af hverju skyldi það vera? Vegna þess að ef menn ætla að hafa innstæðuna verðtryggða þurfa þeir að binda hana í þrjú ár og ég hugsa að margir treysti ekki bönkunum í þrjú ár, þannig er það. Hvað fá menn í vexti á þessar óverðtryggðu innstæður, frú forseti? Það eru 2,5%, kannski 3% ef þeir uppfylla ákveðin skilyrði, eru 65 eða 67 ára eða eitthvað slíkt eða eiga yfir 10 millj. kr. í innstæðum o.s.frv. En segjum að einhver maður borgi auðlegðarskatt og sé kannski rétt yfir þessum mörkum. Nokkuð margir sem borga auðlegðarskatt hafa sagt mér að auðlegðin, þ.e. eignin, minnkar ár eftir ár. Þau tvö ár sem þetta hefur verið við lýði hefur auðlegðin minnkað en um leið hafa mörkin verið lækkuð þannig að þeir komast ekki niður fyrir þau. Löggjafinn, vinstri stjórnin, velferðarstjórnin, elti þá og lækkaði mörkin hraðar en eignin lækkaði þannig að þeir halda áfram að borga auðlegðarskatt og nú á að framlengja hann.

Segjum að einhver maður eigi hús, kannski bíl og jafnvel einhvern sparnað, það hefur ekki verið bannað enn þá. Innstæðan gefur 2,5% vexti en síðan er hún sköttuð með 20%, þá eru 2% eftir og 0,5% fara. Svo kemur á þetta 1,5% auðlegðarskattur. Þá vex innstæðan um hálft prósent í 5% verðbólgu, frú forseti. Og enginn hér á Alþingi kvakar yfir því, hinu háa Alþingi, þegar ráðist er svona á sparifé landsmanna, fyrir utan alla þá sem fá minna en 2,5% vexti á innstæðum sínum. Enginn kvakar yfir því og bankarnir skila milljarða hagnaði og borga milljarðatugi í niðurfellingu á lánum. En þeir hugsa ekki um þá viðskiptamenn sína sem eru sparifjáreigendur. Það vill samt svo merkilega til, frú forseti, að engin króna er lánuð út, þ.e. enginn fær lán hjá banka og flýtir neyslu sinni nema einhver annar hafi sparað og frestað neyslu sinni. Þetta hef ég sagt mörgum sinnum.

Ég þarf að drífa mig því tíminn líður. Sem sagt, það er greinilega mjög vitlaust og óskynsamlegt að spara í dag fyrir utan það að engin ríkisábyrgð er á innstæðum, það hefur komið fram hérna mörgum sinnum. Innstæðutryggingarsjóður er tómur og ef illa fer fyrir bönkunum, til dæmis vegna hræringa úti í heimi, eiga menn ekki neitt, þá er innstæðan horfin. Útilokað er fyrir ríkissjóð að tryggja það, ég hef að minnsta kosti ekki séð neinar ráðstafanir í þá áttina. En það vill svo til að ráðdeild og sparnaður stendur undir fjárfestingum og lánveitingum til fyrirtækja og líka til einstaklinga. Mér sýnist því að þessi vinstri velferðarstjórn hafi kerfisbundið unnið að því í þrjú ár að hér fáist ekki lán. Og því heldur hún áfram með þessari skattlagningu; auðlegðarskattinum, skatti á séreignarsparnaðinn o.s.frv.

Það getur vel verið að það sé ágætismarkmið að menn fái ekki lán. En ég er ekki sammála því. Ég man eftir þeirri stöðu þegar ég kom frá námi að hvergi nokkurs staðar var lán að hafa, hvergi, ekki nema maður þekkti einhvern þingmann sem þekkti einhvern bankastjóra sem gat reddað manni víxli. Þannig var staðan þá.

Ég ætla að ljúka þessu með því að tala um lífeyrissjóðina og álögur á þá. Þær eru úr ýmsum áttum. Ég hef beint fyrirspurn, sem væntanlega verður dreift á morgun, til fjármálaráðherra um hvaða álögur séu lagðar á lífeyrissjóðina og það verði brotið niður á þá sjóði sem njóta ábyrgðar opinberra aðila, þ.e. LSR og lífeyrissjóðir sveitarfélaganna, og hina sjóðirnir og hvernig þeir geti brugðist við. Hvað gerist til dæmis með B-deild LSR þegar álögur eru hækkaðar á sjóðinn, frú forseti? Það gerist ekki neitt, akkúrat ekki neitt nema að skuldbinding ríkissjóðs, sem er enn þá ófærð og óbókuð í fjárlögum upp á þrjú, fjögur hundruð milljarða, hækkar, þ.e. skuldbinding ríkissjóðs hækkar þegar álögur eru settar á lífeyrissjóðina. Þar eru sjóðfélagar alveg í skjóli.

Hvað gerist í A-deildinni, frú forseti? Það er athyglisvert vegna þess að hér erum við afgreiða fjárlög og menn segja að þetta sé allt saman ljómandi gott, sérstaklega stjórnarliðar, og miklum árangri náð í ríkisfjármálum. En ýmislegt vantar. Bent hefur verið oftsinnis á það í umræðunni að til dæmis vanti 11,2–20 milljarða hjá Sparisjóði Keflavíkur, bara hjá einum sparisjóði, og það gerðist á vakt hæstv. fjármálaráðherra. Ýmislegt vantar því inn í fjárlögin. LSR vantar líka.

Í LSR, A-deildinni, sem átti að vera algjörlega án ríkisábyrgðar og án nokkurra skuldbindinga, vantar litla 47,7 milljarða. Í lögum um þann ágæta sjóð, nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, stendur í 6. gr. að stjórn sjóðsins skuli skipuð átta mönnum og ráðherra skipi fjóra stjórnarmenn. Þessi stjórn, samkvæmt 13. gr., á að hækka framlag launagreiðenda í samræmi við niðurstöður tryggingafræðilegrar athugunar. Það hefur ekki verið gert. Sumir hafa vísað í almenn lög um lífeyrissjóði þar sem segir að ákveðið bil eða skilrúm megi vera á milli eigna og skuldbindinga hjá lífeyrissjóðum. Það var 10% að öllu jöfnu en var svo hækkað í 15%. Stjórnin hefur vísað í þetta en hún getur það ekki, frú forseti. Þó að ég sé ekki lögfræðingur veit ég að sérlög gilda umfram almenn lög, þannig að sérlögin um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eiga að gilda og stjórnin á að hækka framlag launagreiðenda í samræmi við niðurstöður tryggingafræðilegrar athugunar.

Hvað skyldi þurfa að hækka það mikið, frú forseti? Úr 15,5% heildariðgjaldi í 19,5%. Það hef ég heyrt og ég trúi því að það þurfi að hækka iðgjald launagreiðanda. Hver skyldi hann nú vera í þessu tilviki? Það er ríkið. Það á sem sagt að hækka iðgjald launagreiðanda um 4% af launum allra ríkisstarfsmanna, sem þýðir 4 milljarða. Ég sé að hv. þingmaður kinkar kolli yfir þessum upplýsingum og ljómandi gott að fá staðfestingu á þessu.

4 milljarða vantar sem þýðir að fjárlagafrumvarpið er ekki rétt. Það væri athyglisvert að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, og ég ætlaði að gera það í dag en komst ekki að, hverju það sætti að stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hefði ekki farið að lögum um lífeyrissjóði. Þar vantar því 4 milljarða bara í hækkað iðgjald ríkisins, en svo vantar líka 47,7 milljarða óuppgerðar áfallnar skuldbindingar í A-deildinni. Það er því ýmislegt að þessari aðferð velferðarstjórnarinnar við að auka velferð í landinu. Í fjárlagafrumvarpið, sem sagt er vera með 20 milljarða halla, vantar sennilega 20–50 milljarða til viðbótar þegar öll kurl verða komin til grafar. Það er mjög slæmt að plata skattgreiðendur, eins og rætt var hér í dag um að ekki ætti að segja þeim ósatt, heldur segja satt og telja fram allar skuldbindingar ískalt og segja fólki hver staðan er í reynd í stað þess að fela það á þennan hátt. En ég bíð alltaf eftir skýrslu ríkisendurskoðanda sem ég óskaði eftir 17. janúar, það er að verða komið ár síðan, þar sem ég óskaði eftir því að hann færi í gegnum allar þær skuldbindingar sem ekki hafa verið færðar í ríkisreikningi, í fjárlögum eða fjáraukalögum. Ég bíð eftir þeirri skýrslu og verður spennandi að sjá hvað kemur út úr henni. Það verður væntanlega þegar þingið er komið heim, þá fáum við að vita þetta.

Ég segi aftur: Í því frumvarpi sem við ræðum hér eru margir góðir partar og ýmislegt til bóta frá því frumvarpi sem ríkisstjórnin lagði fram sjálf. Hún hefur verið sannfærð um að kolefnisskatturinn hafi verið mistök og menn hafa tekið lífeyrissjóðina út í tengslum við fjársýsluskattinn o.s.frv., það er ýmislegt gott í þessu. Hér eru reyndar hækkaðir nefskattar sem mér hefur alltaf verið mjög illa við, útvarpsgjaldið og skatt til málefna aldraðra, ég hef alltaf verið á móti þeim skatti af því að hann er svo félagslega slæmur, en það truflar ekki velferðarstjórnina að leggja svoleiðis skatt á. En ég held að þessi tilraun vinstri manna, vinstri ríkisstjórnarinnar, hafi mistekist, mistekist hafi að skatta þjóðina út úr kreppunni. Ég heyri að minnsta kosti mjög mikið vonleysi hjá því fólki sem ég hef talað við. Sumir eru að vinna í Noregi, aðrir eru að fara til útlanda og þetta fólk hefur ekki þá bjartsýni sem kom til dæmis fram í máli hv. þm. Magnúsar Orra Schrams, sem er fulltrúi Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd. Þetta fólk hefur ekki þá bjartsýni, því miður. Ég vildi gjarnan að fólkið hefði meiri von og horfði til framtíðarinnar af bjartsýni því að það er heilmikið af tækifærum á Íslandi. Ef reglur skattkerfa og allt viðmót ríkisvaldsins væri jákvætt væri hægt að gera heilmikið, til dæmis ef menn léttu af sköttum þannig að fólk sæi einhvern árangur af erfiði sínu. Þá væri hér von. En mér sýnist stefna hraðbyri í átt til langvarandi kyrrstöðu og stöðnunar.