140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[23:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er að mínu mati nokkuð bjartsýnn maður og ég er þeirrar náttúru að ég er yfirleitt bjartsýnn þegar aðrir eru svartsýnir og svartsýnn þegar aðrir eru bjartsýnir. Það hefur reynst mér ágætlega.

Ég sé heilmikið af tækifærum í dag. Það er heilmikið af tækifærum, t.d. þau fyrirtæki sem hafa komist í eigu bankanna og ríkisins og lífeyrissjóðanna, þau eru örugglega góð kauptækifæri mörg hver. En sá ágalli sem er á hlutafélagaforminu eða á bókhaldi fyrirtækja hefur t.d. ekki verið lagaður. Ríkisstjórnin hefur ekki lært af hruninu. Það hefur ekkert verið gert eða ekki nægilega í hlutafélagalögum eða bókhaldslögum til að menn verði ekki plataðir upp úr skónum með því að kaupa í Högum eða öðrum fyrirtækjum.

Það væri líka heilmikið af tækifærum ef menn væru ekki skattaðir undir drep og sérstaklega ef ríkisstjórnin hætti að ráðast á sparnaðinn, þannig að ég hef verið jákvæður.

Varðandi það að menn hafi ekki tekið á skuldavandanum finnst mér yfirleitt þegar ég heyri hv. þm. Björn Val Gíslason tala að hann sé bara fastur í fortíðinni. Hann er ekkert að gera neitt til framtíðar. Hann er alltaf að vitna í hvað gerðist í hruninu og að hann hafi tekið við þessum ægilegu byrðum og þetta sé svo ógurlega erfitt, hann eigi svo bágt og hann geti ekkert að þessu gert. En hann er búinn að vera við stjórn núna í nærri þrjú ár (Gripið fram í.) og það er búið að gera alveg rosaleg mistök. (Gripið fram í: Lífeyrissjóðirnir.) Já, og varðandi lífeyrissjóðina, ég veit, það var ekki tekið á þessu. A-deildin átti að vera til framtíðar og stjórn sjóðsins ber á þessu ábyrgð, ég sé ekki annað, það stendur í lögunum. Það er spurning um að spyrja þetta ágæta fólk hvað sé að gerast og hvort eitthvert vink hafi komið úr fjármálaráðuneytinu.

Ég vil nefnilega að menn beri ábyrgð á því sem þeir gera sjálfir, t.d. með Sparisjóð Keflavíkur og stöðu lífeyrissjóðsins núna.