140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

yfirlýsing.

[11:34]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Eftirlitsstofnun EFTA hefur tilkynnt að hún hafi komist að þeirri niðurstöðu að stefna beri Íslandi fyrir EFTA-dómstólinn vegna Icesave-málsins svonefnda. Eins og þingheimi er kunnugt hefur málið verið fyrir Eftirlitsstofnuninni frá því að hún sendi íslenskum stjórnvöldum bréf í maí 2010 þess efnis að hún teldi að íslensk stjórnvöld hefðu vanefnt skyldur sínar samkvæmt EES-samningnum. Við sendum 2. maí í vor svar til Eftirlitsstofnunar EFTA þar sem við gerðum grein fyrir þeim efnisrökum sem Ísland hefði í málinu og höfnuðum því að Ísland hefði brotið gegn skyldum sínum samkvæmt EES-samningnum og lýstum málstað Íslands með vönduðum hætti. 10. júní sendi Eftirlitsstofnun EFTA síðan rökstutt álit sem við svöruðum með bréfi 30. september síðastliðinn.

Það er mikilvægt að hafa í huga að þetta er eitt af fjölmörgum dómsmálum þar sem Ísland tekur til varna fyrir EFTA-dómstólnum. Við höfum oft tekið til varna í málum sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur höfðað gegn Íslandi og það er helgur réttur okkar að fá að leggja fyrir dóm mál þar sem ágreiningur er um lagalega skyldu.

Mikilvægt er líka að hafa í huga að fjárhagsáhættan í málinu er nú mjög takmörkuð, öfugt við það sem áður var. Hæstiréttur hefur með dómum sínum í októbermánuði kveðið skýrt á um forgang innstæðna og sagt að allir innstæðueigendur njóti þessa forgangs, ekki aðeins þeir sem áttu minnstu innstæðurnar, ekki bara einstaklingar heldur allir innstæðueigendur, líka góðgerðafélögin í Bretlandi, líka innstæðueigendurnir með stóru fjárhæðirnar í Hollandi.

Það liggur líka fyrir að slitastjórn Landsbankans hefur tilkynnt að peningar muni verða til í búinu fyrir öllum þessum kröfum. Stóra talan í málinu, innstæðukröfur upp á annað þúsund milljarða króna verða því greiddar af þrotabúinu sjálfu.

Við getum borið höfuðið hátt vegna neyðarlaganna sem sett voru haustið 2008. Þau njóta nú viðurkenningar og á grundvelli þeirra eru innstæðueigendur víða um lönd að fá innstæður sínar greiddar, góðgerðarfélög sem ekki nutu innstæðutrygginga í heimalandi sínu eru nú að fá peninga greidda frá þrotabúi Landsbankans og munu fá kröfur sínar greiddar til fulls.

Í því bréfi sem Eftirlitsstofnun EFTA sendi í júnímánuði er látið að því liggja að Ísland hafi brotið gegn skuldbindingum sínum með því að tryggja ekki að innstæður væru aðgengilegar strax í kjölfar hrunsins haustið 2008. Við höfum svarað því skýrt að óframkvæmanlegt hefði verið að tryggja aðgang að þeim innstæðum, þó ekki væri nema vegna þess að ef þær hefðu verið fluttar yfir í nýju bankana og erlendir innstæðueigendur hefðu getað tekið þær út á fyrsta degi, hefðu nýju bankarnir orðið gjaldþrota á fyrsta degi því að gjaldeyrisvaraforði þjóðarinnar var ekki þannig að hægt væri að standa við útgreiðslu þessara fjármuna. Okkur var þar af leiðandi ómögulegt að haga málum þannig en við gerðum hitt, við tryggðum rétt innstæðueigenda eins og hægt var með neyðarlögunum.

Hollendingar og Bretar eiga vissulega réttmæta kröfu á að verða ekki fyrir óþarfa tjóni vegna gjaldþrots banka á Íslandi og vegna hruns fjármálakerfis á Íslandi og þeir hafa ekki orðið fyrir því. Neyðarlögin tryggja öllum innstæðueigendum forgang. Ef Ísland hefði bara tryggt forgang lágmarksinnstæðna og ekki breytt að öðru leyti forgangi innstæðukrafna í bú hinna föllnu banka 2008 væru bresk og hollensk stjórnvöld að fá miklu, miklu minni fjárhæðir í sinn hlut en þau eru nú að fá. Í tilviki Bretlands eins munar um milljarði punda á því sem þeir eru að fá vegna neyðarlaganna og því sem þeir hefðu fengið ef við hefðum tryggt þeim lágmarkstrygginguna og ekki gert neitt annað.

Eins og ég segi eiga Bretar og Hollendingar rétt á því að verða ekki fyrir tjóni og vera ekki órétti beittir vegna hruns á Íslandi en þeir eiga ekki á því rétt, hvorki lagalegan né siðferðilegan, að gera hrunið 2008 sér að sérstakri féþúfu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þeir eiga réttmæta kröfu, henni hefur verið mætt með setningu neyðarlaganna.

Virðulegi forseti. Það er réttur Íslendinga að verjast fyrir dómstóli og það ber okkur að gera og okkur ber að gera það full stolts og sjálfstrausts. Við höfum góðan málstað að verja í þessu máli. Með neyðarlögunum var gripið til þeirra aðgerða sem hægt var en við getum ekki borið ábyrgð á grundvallarveikleikum í innstæðutryggingakerfi Evrópusambandsins. Málsvörn okkar mun þess vegna líka þurfa að taka mið af þeirri stöðu að fjármálakerfið í Evrópu er í mikilli deiglu og miklum erfiðleikum. Á vettvangi Evrópusambandsins vinna menn að nýjum hugmyndum um betra innstæðutryggingakerfi. En jafnvel í þeim hugmyndum er því ekki skýrt svarað hvað gerist ef heilt fjármálakerfi hrynur og því er meira að segja hafnað að ríkisábyrgð sé á skuldbindingum sem ekki fást greiddar út úr innstæðutryggingakerfinu.

Ísland verður að standa með sjálfu sér. Við gerðum það sem rétt var og nauðsynlegt haustið 2008, og við brugðumst við aðstæðum með besta hætti sem hægt var. Við eigum líka að hafa í huga að það er gott fyrir okkur núna að setja þessi rök fram fyrir dómi. Við skulum hafa í huga að Bretar og Hollendingar neituðu okkur um þann rétt haustið 2008 að fá að leggja þetta mál í dóm. Slík var þá trú þeirra á málstaðinn sem þeir höfðu þá að verja.

Við erum smáþjóð sem byggir tilveru sína á lögum og rétti og við virðum alþjóðalög. Við höfum í þessu máli farið í hvívetna eftir þeim skuldbindingum sem við erum bundin af og við munum auðvitað gera það áfram. Það mun skipta miklu að við höldum víðtækri samstöðu um þessa málsvörn í þessum sal og á meðal þjóðarinnar og komum fram einhuga og segjum skýrt að Ísland getur borið höfuðið hátt vegna þess sem gert var haustið 2008 og við þurfum ekki að bera neinn kinnroða fyrir því hvernig við leystum úr fordæmalausum vanda.